Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,9% í 5,3 milljarða veltu í dag og stendur nú í 2.630 stigum. Vísitalan hefur hækkað um 9% á einni viku og hefur ekki verið hærri frá 20. september síðastliðnum.

Marel hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 3,3% í meira en eins milljarðs króna viðskiptum. Um er að ræða sjötta viðskiptadaginn í röð sem gengi félagsins hækkar og stendur það nú í 508 krónum. Marel birtir uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun markaða á miðvikudaginn.

Smásölufyrirtækin Festi og Hagar ásamt tryggingafélaginu Sjóvá hækkuðu einnig um meira en 2% í viðskiptum dagsins.

Hlutabréf bankanna þriggja í Kauphöllinni hækkuðu í dag. Gengi Kviku hækkaði um 1,9% í nærri 900 milljóna veltu og stendur nú í 19,25 krónum. Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði sjötta viðskiptadaginn í röð og stendur í 128,6 krónum.

Hlutabréfaverð Arion banka hækkaði um 1,9% rúmlega milljarðs króna veltu og stendur nú í 162,5 krónum. Eftir lokun markaða á föstudaginn var tilkynnt um að eiginkona Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion, og Iða Brá Benediktsdóttir aðstoðarforstjóri hefðu keypt hlutabréf í bankanum fyrir samtals 42 milljónir.