Rautt var yfir að litast í Kauphöllinni í dag, líkt og á undanförnum misserum. Úrvalsvísitalan, sem stendur nú í rúmlega 2700 stigum, hefur nú lækkað um 6% síðastliðinn mánuðinn og um 20% frá áramótum.
Öll félög nema tvö á aðalmarkaði Kauphallarinnar lækkuðu í viðskiptum dagsins. Ekkert félag hækkaði, en gengi bréfa Regins og Sýnar stóð í stað.
Marel lækkaði mest allra félaga á markaði, um 4,5% í 280 milljón króna viðskiptum. Gengi bréfa félagsins stendur í 510 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í byrjun mars árið 2020 þegar kórónuveirufaraldurinn braust út og mikil óvissa ríkti í hagkerfinu. Þá hefur hlutabréfaverð Marel lækkað um 41% frá áramótum.
Gengi bréfa Kviku banka lækkaði um 3,8% í 410 milljón króna viðskiptum í dag. Icelandair lækkaði um 3,1% og stendur gengi félagsins í tæplega 1,9 krónum á hlut.
Mest velta var með bréf Síldarvinnslunnar, en viðskipti með bréfin námu 450 milljónum króna. Heildarvelta á markaði nam 2,8 milljörðum króna.