Hlutabréf Marels og Kviku banka hafa lækkað um 4%-9% í fyrstu viðskiptum dagsins en bæði félög sendu frá sér neikvæða afkomuviðvörun í gærkvöldi.

Hlutabréfaverð Marels hefur lækkað um 8,5% frá opnun Kauphallarinnar í morgun og stendur í 622 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð. Marel tilkynnti í gærkvöldi um áform um að fækka starfsmönnum um 5% til að lækka kostnað eftir hægari tekjuvöxt og lakari EBIT framlegð en áætlað var.

Sjá einnig: Marel fækkar starfsmönnum um 5%

Gengi hlutabréfa Kviku banka hefur lækkað um 4,3% í fyrstu viðskiptum eftir opnun Kauphallarinnar í morgun og stendur í 20,1 krónu þegar fréttin er skrifuð, samanborið við 21 krónu við lokun markaða í gær.

Kvika sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun í gærkvöldi. Bankinn áætlar að hagnaður fyrir skatta á öðrum ársfjórðungi verði á bilinu 450-500 milljónir króna, sem er um 1,8 milljörðum undir áætlun. Skýrist það einkum af því að fjárfestingatekjur Kviku á fjórðungnum voru 1,9 milljörðum lægri heldur en áætlanir gerðu ráð fyrir en bankinn lýsti því að aðstæður á verðbréfamörkuðum á ársfjórðungnum hafi verið „með allra versta móti“.