Evrópskir hlutabréfamarkaðir opnuðu rauðir í morgun eftir að Jay Powell seðlabankastjóri Bandaríkjanna varaði við því fyrir helgi að stýrivextir myndu halda áfram hækka. Þetta kemur fram í grein hjá CNBC.
Breska FTSE 100 vísitalan hefur lækkað um 0,7% og hin evrópska Stoxx Europa 600 um 1,2%. Þá hefur þýska DAX vísitalan lækkað um 1,3% og hin franska CAC 40 um 1,6%. Ítalska FTSE MIB vísitalan hefur lækkað um 1%.
Powell sagði í yfirlýsingu á föstudaginn síðastliðinn að Seðlabankinn myndi beita sér af krafti við að stemma stigu við verðbólgunni sem hefur ekki verið hærri í 40 ár. Hann viðurkenndi að hækkandi stýrivextir myndu gera heimilum og fyrirtækjum erfitt fyrir.
Sjá einnig: Verðbólgan í BNA hjaðnar um 0,6 prósentur
Ársverðbólga í Bandaríkjunum mældist 8,5% í júlí og hjaðnaði um 0,6 prósentur frá því í júní þegar hún náði sínu hæsta gildi í fjóra áratugi. Verðbólgan mældist undir spám hagfræðinga sem Bloomberg leitaði til en þeir áttu von á 8,7% verðbólgu að meðaltali.