Í Bretlandi verður Mars súkkulaðið héðan í frá vafið í endurvinnanlegum pappírsumbúðum. Hingað til hefur súkkulaðið notast við plastumbúðir en nýju umbúðirnar voru sendar til fleiri en 500 verslana Tesco í gær.
Breytingin er hluti af tilraunaverkefni en framleiðendur hafa undanfarið reynt að notast við umhversvænni pakkningar fyrir vörur sínar. Nestle hefur til mynda notast við pappírsumbúðir fyrir Smarties súkkulaðið síðan janúar 2021.
Að sögn framleiðanda Mars hefur það hins vegar verið áskorun að finna umbúðir sem eru bæði endurvinnanlegar og geta þar að auki verndað súkkulaðið sjálft.
Plastumbúðirnar sem finnast utan um Mars súkkulaðið í dag eru ekki endurvinnanlegar en það er raunin með flest önnur súkkulaðistykki. Umbúðirnar enda gjarnan í hafinu og menga þar með umhverfið. Á Filippseyjum til dæmis skolast nokkur tonn af slíkum plastumbúðum á ströndum landsins á hverju ári.
Ríkisstjórnir í Evrópu hafa í auknum mæli verið að banna plastumbúðir. Frakkar hafa bannað einnota plastvörur á veitingastöðum sínum og breska ríkisstjórnin bannaði einnota plasthnífapör og -diska í janúar á þessu ári og plaströr árið 2020.