Alþjóðlega félagið BlueCat Network greiddi rúmlega fjóra milljarða króna við kaup félagsins á íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Men & Mice. SÍA III slhf., sjóður í rekstri Stefnis, átti 93% hlut í félaginu fyrir söluna í gegnum félagið MM Holdings ehf.

Í ársreikningi MM Holdings fyrir síðasta ár kemur fram að söluverðið hafi numið tæplega 3,8 milljörðum króna. Í kjölfar sölunnar var hlutafé félagsins lækkað um 89% í ágúst 2023 og rúmlega 3,7 milljarðar greiddir út til eigandans. SÍA III keypti ráðandi hlut í fyrirtækinu fyrir fimm árum og margfaldaðist virði þess í kjölfarið.

Magnús Eðvald Björnsson, sem var forstjóri Men & Mice þar til seint á síðasta ári, átti rúmlega 5% hlut í félaginu. Við söluna fékk hann því rúmlega 200 milljónir króna fyrir sinn hlut. Þá átti Sigfús Magnússon 1,4% hlut í félaginu og Gyða D. Jónsdóttir 0,5%.

BlueCat er með höfuðstöðvar í Toronto og New York og sér um þróun og sölu á hugbúnaðarlausnum líkt og Men & Mice.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.