Nú þegar árinu 2022 er senn að ljúka er tilvalið að líta yfir þær erlendu fréttir sem vöktu mesta athygli lesenda á liðnu ári. Hér eru þær fréttir sem voru í sætum 1 til 5 yfir mest lesnu erlendu fréttir ársins.

1. Hvert renna auðæfi Elísabetar drottningar?

Elísabet II Bretlandsdrottning lést þann 8. september síðastliðinn. The Sunday Times mat eignir hennar, umfram skuldir, á 370 milljónir punda eða um 64 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi.

2. Tvítugur háskólanemi græddi 15 milljarða á BBBY

Hlutabréf smásölufyrirtækisins Bed Bath & Beyond (BBBY) nutu vinsælda meðal dagkaupmanna í ágúst en gengi félagsins margfaldaðist á örfáum dögum og féll síðan á ný. Tuttugu ára háskólaneminn Jake Freeman hagnaðist um ríflega 15 milljarða króna á viðskiptum með bréf BBBY á þessu tímabili.

3. Rússland greiðsluþrota í fyrsta sinn frá 1998

Ríkissjóður Rússlands missti af lokagjalddaga ríflega hundrað milljóna dala vaxtagreiðslu. Þetta var fyrsta greiðslufall rússlenskra stjórnvalda frá árinu 1998 og fyrsta greiðslufall þeirra á erlendum skuldum frá árinu 1918.

4. Offramboð af notuðum Teslum

Danska viðskiptablaðið Börsen greindi frá því í haust að fleiri notaðar Teslur væru til sölu í Danmörku heldur en í Þýskalandi þrátt fyrir að markaður með notaða bíla sé 40 sinnum stærri í Þýskalandi.

5. Stofnaði fyrirtæki 24 ára gömul sem nú er milljarða virði

Emilie Konge Breindal stofnaði fyrirtæki sitt Konges Sløjd árið 2014, þá 24 ára einstæð móðir. Í sumar seldi Emilie, nú 32 ára gömul, meirihluta fyrirtækisins til bresks sjóðs. Samkvæmt heimildum Börsen var barnavöruframleiðandinn metinn á yfir milljarður danskra króna, eða yfir 20 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins, í viðskiptunum.