Raunverð atvinnuhúsnæðis hefur hækkað nokkuð undanfarin misseri. Á síðasta ári nam hækkunin um 8% og var hún einni um 8% á árinu 2022. Á síðustu þremur árum hefur verð á atvinnuhúsnæði hækkað um 26%. Þetta kemur fram í ritum Seðlabankans, Hagvísum og Fjármálastöðugleika.

„Verð atvinnuhúsnæðis mælist áfram hátt í hlutfalli við vísitölu byggingarkostnaðar og mælikvarða á efnahagsumsvif,” segir í Fjármálastöðugleika, sem kom út síðasta haust.  „Velta í þinglýstum viðskiptum með atvinnuhúsnæði jókst umtalsvert á síðasta ári en hefur dregist talsvert saman það sem af er ári. Á fyrstu sjö mánuðum ársins mældist veltan nærri 27 ma.kr. og dróst saman um 65% að raunvirði frá sama tímabili í fyrra.

Flestir mælikvarðar á spurn eftir atvinnuhúsnæði gefa til kynna að hún sé mikil um þessar mundir. Mikill vöxtur hefur verið í hagkerfinu og starfandi fólki hefur fjölgað ört allt frá lokum heimsfaraldursins.”

Aukning á atvinnuhúsnæði í byggingu

Stofn atvinnuhúsnæðis á landinu öllu stækkaði um 1% á fyrstu sjö mánuðum síðasta árs eftir 1,6% vöxt árið 2022. Frá árslokum 2020 hefur mest verið byggt af iðnaðarhúsnæði á meðan minna hefur verið um nýbyggt skrifstofuhúsnæði að því er fram kemur í riti Seðlabankans. Í því segir að vöxtur í stofni fullgerðs atvinnuhúsnæðis hafi verið hægur allt frá fjármálaáfallinu 2008 og áhersla byggingaverktaka virðist fremur hafa verið á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

Atvinnuhúsnæði í byggingu hefur aukist nokkuð á síðustu árum. Á seinni hluta síðasta árs voru um 735 þúsund fermetrar atvinnuhúsnæðis í byggingu á landinu öllu og hafa þeir ekki verið fleiri frá lokum árs 2011. Þess ber að geta að inni í þessum tölum er 70 þúsund fermetra bygging nýs Landspítala.

„Húsnæði í byggingu sem hlutfall af stofni atvinnuhúsnæðis mældist 5,5% í lok ágúst og hefur það aukist undanfarin ár eftir að hafa mælst minnst 3,6% í lok árs 2016. Sama hlutfall fór hæst í tæplega 9% í lok árs 2008,” segir í riti Seðlabankans.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Fasteignamarkaður. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.