Úrvalsvísitalan hefur hækkað um meira en 2% í fyrstu viðskiptum frá opnun Kauphallarinnar í morgun. Helmingur félaga aðalmarkaðarins hafa hækkað um meira en 1%. Marel leiðir hækkanir en gengi félagsins hefur hækkað um meira en 3% í hundrað milljóna króna viðskiptum í dag og stendur nú í 526 krónum.

SVN hækkar um 3% við kaup Mowi í Arctic Fish

Hlutabréf Síldarvinnslunnar hafa sömuleiðis hækkað um meira en 3% frá opnun Kauphallarinnar. Gengi útgerðarfélagsins stendur nú í 117 krónum

Eftir lokun markaða í gær var tilkynnt um að Mowi, stærsta fiskeldisfyrirtæki heims hefði keypt 51,3% hlut Norway Royal Salmon í Arctic Fish, sem rekur eldisstöðvar á Vestfjörðum, fyrir 26 milljarða íslenskra króna. Síldarvinnslan er næst stærsti hluthafi Arctic Fish eftir að hafa keypt 34% hlut fyrir 15 milljarða í júní.

Hlutabréfaverð Arctic Fish, sem er skráð á Euronext-markaðinn í Osló, hefur hækkað um meira en fjórðung í fyrstu viðskiptum í dag og stendur nú í 112 norskum krónum á hlut. Kaupverð Mowi miðaði við 115 norskar krónur á hlut en Síldarvinnslan keypti sig inn á 100 norskar krónur í sumar.

Hækkanir í Evrópu

Evrópska hlutabréfavísitalan Stoxx Europe 600 og hin breska FTSE 100 hafa báðar hækkað um meira en 1% í morgun.

Í umfjöllun Bloomberg segir að hækkanir megi m.a. rekja til hækkana á hlutabréfamörkuðum í Asíu. Hang Seng vísitalan í Hong Kong hækkaði um meira en 5% eftir fregnir um að búið væri að koma á fót nefnd í Kína til að kanna sviðsmyndir um afnám samkomutakmarkana.

Fjárfestar bíða nú eftir vaxtaákvörðun seðlabanka Bandaríkjanna og Bretlands í vikunni. Seðlabanki Bandaríkjanna birtir vaxtaákvörðun á miðvikudaginn. Vaxtaákvarðanir Englandsbanka og seðlabanka Noregs eru boðaðar á fimmtudaginn.