Javier Milei, forseti Argentínu, ítrekaði í 43 mínútna ræðu á argentínska þinginu í gærkvöldi áform sín um að skila afgangi af rekstri ríkissjóðs á næsta ári. Hann sagðist ætla að beita neitunarvaldi sínu gegn öllum frumvörpum sem tefla því í tvísýnu að það markmið náist.

„Eftir mörg ár þar sem stjórnmálastéttin hefur heft frelsi einstaklinga þá erum við hér samankomin í dag til að vera ríkinu fjötur um fót,“ sagði Milei í hálftómum þingsal en margir þingmenn stjórnarandstöðunnar létu ekki sjá sig.

Markaðir tóku vel í ræðu Milei. S&P Merval hlutabréfavísitalan hækkaði um meira en 1% í viðskiptum dagsins og ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa lækkaði.

Javier Milei, forseti Argentínu, ítrekaði í 43 mínútna ræðu á argentínska þinginu í gærkvöldi áform sín um að skila afgangi af rekstri ríkissjóðs á næsta ári. Hann sagðist ætla að beita neitunarvaldi sínu gegn öllum frumvörpum sem tefla því í tvísýnu að það markmið náist.

„Eftir mörg ár þar sem stjórnmálastéttin hefur heft frelsi einstaklinga þá erum við hér samankomin í dag til að vera ríkinu fjötur um fót,“ sagði Milei í hálftómum þingsal en margir þingmenn stjórnarandstöðunnar létu ekki sjá sig.

Markaðir tóku vel í ræðu Milei. S&P Merval hlutabréfavísitalan hækkaði um meira en 1% í viðskiptum dagsins og ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa lækkaði.

Í umfjöllun Financial Times segir að Milei hafi gert árlega og venjubundna ræðu um fjárlög á argentínska þinginu - sem efnahagsráðherrum ríkisstjórnarinnar er yfirleitt falið að flytja - að sjónvarpsviðburði sem sýndur var í beinni. Með þessu hafi hann reynt að fá aukinn stuðning frá almenningi níu mánuðum eftir að hann tók við embætti forseta.

Fjárlagafrumvarpið felur í sér að ríkissjóður Argentínu verði rekinn með frumjöfnuði upp á 1,3% af vergri landsframleiðslu (VLF) á næsta ári.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði í kringum 5% á næsta ári en til samanburðar er áætlað að argentínska hagkerfið muni dragast saman um 3,8% í ár. Jafnframt er gert ráð fyrir að ársverðbólga verði komin niður í 18,3% í árslok 2025 en áætlað er að hún verði 122,9% í lok þessa árs.

Mikil átök hafa verið á milli Milei og stórs hluta argentínska þingsins á undanförnum dögum. Í síðustu viku varði ríkisstjórnin naumlega beitingu hans á neitunarvaldinu gegn frumvarpi um að auka útgjöld til lífeyriskerfisins.

Milei býr sig einnig undir að beita neitunarvaldinu gegn lagafrumvarpi um að auka útgjöld til háskólamála, sem þingið samþykkti á fimmtudaginn síðasta.

Frá argentínska þinginu í gærkvöldi þar sem Javier Milei flutti 43 mínútna ræðu.
© epa (epa)