Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar Seðlabankinn tilkynnti um hækkun á bindiskyldu bankanna á fimmtudaginn í síðustu viku. Bindiskyldan hækkar úr 2% yfir í 3% af bindigrunni lánastofnana og samkvæmt þeim sérfræðingum á fjármálasviðum bankanna sem blaðið ræddi við þýðir þetta um þriggja milljarða kostnaðarauka fyrir bankana á ári hverju miðað við núverandi vaxtastig. Heildarkostnaður bankanna vegna vaxtalausrar bindiskyldu nemur um átta milljörðum á ári.
Það sem vakti athygli við tilkynninguna er að hækkunin var ekki rökstudd með neinni sérstakri vísun í markmið peningamálastefnunnar. Hún er fyrst og fremst ætluð til þess að draga úr kostnaði Seðlabankans við að halda úti gjaldeyrisforða. Þetta er þriggja milljarða fegrunaraðgerð á rekstrarreikningi Seðlabankans. Í tilkynningu bankans um breytinguna segir um gjaldeyrisforðann:
„Hann er auk þess öryggissjóður sem hægt er að grípa til þegar stór og óvænt áföll eiga sér stað sem raska gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Slíkri tryggingu fylgir hins vegar kostnaður sem eykst eftir því sem vaxtamunur gagnvart útlöndum er meiri. Þessi kostnaður er að mestu leyti borinn af Seðlabankanum en aðrir innlendir haghafar njóta ábatans í formi hagstæðari vaxtakjara á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.“
Eigið fé Seðlabankans um 100 milljarðar
Sama dag og tilkynnt var um hækkunina útskýrði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri málið frekar í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans. Eigið fé Seðlabankans er nú um 100 milljarðar en stjórn bankans hefur sett sér það markmið að það verði um 150 milljarðar.
Ásgeir sagði stöðuna geta grafið undan trúverðugleika peningamálastefnunnar. Í ræðu sinni sagði Ásgeir:
„Þótt seðlabankar séu ekki hagnaðardrifnir og geti tæknilega séð ekki orðið gjaldþrota í heima-gjald-miðli sínum þá hefur fjár-hags-staða þeirra áhrif á trúverðugleika þeirra. Stundum hefur verið litið á eigið fé þeirra sem eins konar fót undir verð-mæti seðla-út-gáfu þeirra. En í öllu falli er ljóst að tap-rekstur seðlabanka felur í sér raunverulega til-færslu á verðmætum út í hagkerfið. Það er því af þessum sökum sem það er almenn al-þjóðleg á-hersla að seðla-bankar haldi vel utan um eigið fé sitt, meðal annars til þess að tryggja trúverðugleika.”
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.