Samherji fiskeldi ehf. hefur aukið hlutafé sitt um 3,5 milljarða króna en þar með er fyrsta fasa af samtals 7,5 milljarða hlutafjáraukningu félagsins lokið. Verður fjármagnið nýtt til uppbyggingar tilraunaverkefnis í Öxarfirði, sem og í hönnun og framkvæmdir við 40 þúsund tonna fiskeldi í Auðlindagarðinum við Reykjanesvirkjun.
Norðmaðurinn Alf-Helge Aarskog hefur fjárfest í Samherja fiskeldi og mun setjast í stjórn félagsins á aðalfundi, sem haldinn veðrur von bráðar. Það eru töluverð tíðindi því Aarskog er fyrrverandi forstjóri Mowi, stærsta fiskeldisfyrirtækis veraldar og einn af reynslumestu sérfræðingum heims á sviði fiskeldis. Til þess að setja stærð fyrirtækisins í samhengi þá framleiðir það 20% af öllum laxi, sem seldur er á heimsvísu.
Samherji fiskeldi hefur markað sér sérstöðu á Íslandi því í öllum fimm eldisstöðvum félagsins er fiskeldið uppi á landi en ekki í sjókvíum.
Aarskog hefur mikla trú á landeldinu hjá Samherja og ekki síst fyrirhugaðri uppbyggingu á Reykjanesi. Að hans sögn er það fyrsta verkefnið á sviði landeldis, sem hann hefur raunverulega trú á. Að hans mati skiptir staðarvalið miklu máli enda er nóg af vatni og orku í Auðlindagarðinum. Telur Aarskog spennandi tíma framundan hjá Samherja fiskeldi og hann hefur trú á að fyrirtækið geti orðið leiðandi á heimsvísu í landeldi.
Að sögn Jóns Kjartans Jónssonar, framkvæmdastjóra Samherja fiskeldis, felst mikil viðurkenning í því fyrir félagið að Aarskog hafi ákveðið að fjárfesta í því og setjast í stjórn enda hafi fáir í heiminum meiri reynslu af fiskeldi.
Mögulega skráð á hlutabréfamarkað
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, tekur undin með Jóni Kjartani.
„Við erum að fá mann með gríðarlega þekkingu og reynslu," segir Þorsteinn Már. "Hann hefur stjórnað stærsta fiskeldisfyrirtæki heims, fyrirtæki sem veltir rúmlega tvöföldum íslenskum sjávarútvegi. Hann hefur ekki bara verið farsæll stjórnandi heldur er hann fiskeldismaður og menntaður í þeim fræðum."
Áætlaður kostnaður við fyrsta áfanga landeldisins á Reykjanesi er um 17 milljarðar króna og verður framleiðslan þá 10 þúsund tonn af laxi. Þorsteinn segir að ef það gangi vel muni annaðhvort verða leitað að nýjum fjárfestum til að fara í áfanga tvö og þrjú eða félagið skráð á hlutabréfamarkað.
„Flest fiskeldisfyrirtæki í heiminum eru á hlutabréfamarkaði og ástæðan fyrir því er að þetta er grein sem krefst mikils fjármagns," segir Þorsteinn Már. „Það er mjög kostnaðarsamt að koma fiskeldi af stað því gríðarlegt fjármagn er bundið í lífmassanum á hverjum tíma.
Það hefur verið mikil umræða um landeldi en menn eiga eftir að sýna að það gangi upp og sé fjárhagslega hagkvæmt. Við höfum trú á því en það þarf meira en orð. Fjárfestingar okkar í Öxarfirði í sumar verða til þess að afla okkur meiri þekkingar á landeldinu áður en við förum í stóra verkefnið á Reykjanesi."
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér