Hagnaður Símans á þriðja fjórðungi nam 507 milljónum króna borið saman við 718 milljónir á sama tímabili í fyrra eftir að búið er að leiðrétta fyrir aflagðri starfsemi. Hagnaðurinn dróst því saman um 29% þrátt fyrir að tekjur félagsins hafi verið 5% meiri en í fyrra.

Hagnaður Símans á þriðja fjórðungi nam 507 milljónum króna borið saman við 718 milljónir á sama tímabili í fyrra eftir að búið er að leiðrétta fyrir aflagðri starfsemi. Hagnaðurinn dróst því saman um 29% þrátt fyrir að tekjur félagsins hafi verið 5% meiri en í fyrra.

Ástæðan fyrir minni hagnaði liggur í ýmsum þáttum. Kostnaðarverð sölu jókst meira en tekjur í krónum talið og minnkaði framlegð úr 2.335 milljónum í 2.216 milljónir. Aðrar tekjur voru 22 milljónum króna minni og rekstrarkostnaður 80 milljónum króna meiri. Fjármagnsgjöld voru einnig 303 milljónir borið saman við 165 milljónir í fyrra.

Eiginfjárhlutfall Símans var 52,4% í lok þriðja ársfjórðungs 2023 og eigið fé 18 milljarðar

„Frá fyrstu tveimur fjórðungum ársins aukast nú tekjur, EBITDA og EBIT með myndarlegum hætti. Utanaðkomandi kostnaðarhækkanir hafa verið örar undanfarin misseri og við höfum varla náð að láta tekjuvöxt halda í við aukin útgjöld. Þriðji fjórðungur í ár var hagfelldari en hinir fyrri tveir, sem oft er raunin en sú breyting er sérlega áberandi nú, auk þess sem EBITDA vex lítillega milli ára. Við erum enn í miðju afskriftaferli aukinna fjárfestinga okkar frá undanförnum tveimur árum, fyrst og fremst vegna samninga um vinsælt sjónvarpsefni og vegna nýrrar tækni með stuttan afskriftatíma. Til lengri tíma munu þær fjárfestingar nýtast fyrirtækinu vel, en hafa tekið EBIT verulega niður undanfarna ársfjórðunga. Þar hefur botninum nú verið náð og EBIT hafið vaxtarferil sinn á ný,” segir Orri Hauksson forstjóri Símans í uppgjörinu.

Sala á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 nam 19 milljörðum kr. samanborið við 18,3 milljörðum árið 2022, sem er 4,1% vöxtur milli tímabila.

„Sé horft til kjarnavara félagsins (farsíma, gagnaflutnings og sjónvarpsþjónustu) er tekjuvöxtur 7,8%. Tekjur af farsíma námu 4.854 m.kr. og hækkuðu um 354 m.kr. eða 7,9% á milli tímabila. Tekjur af talsíma námu 835 m.kr. og lækkuðu um 21,4% á milli tímabila,“ segir í uppgjörinu.

Tekjur Símans af gagnaflutningi námu 5,9 milljörðum og hækkuðu um 312 milljónir eða 5,5% á milli tímabila. Tekjur af sjónvarpsþjónustu námu 5,5 milljörðumog hækkuðu um 518 milljónir eða 10,5% á milli tímabila.

Tekjur af vörusölu námu 1,3 milljarðar og drógust saman um 98 milljónir eða 7,2% á milli tímabila.

Aðrar tekjur námu 703 milljónir og lækkuðu um 115 milljónir á milli tímabila.

„Lækkunin er aðallega vegna sölu á fjarskiptabúnaði og þjónustu til Mílu og endursölu á Spotify á 1F 2022,“ segir í uppgjörinu.