Matsfyrirtækið Moodys hefur ákveðið að lækka lánshæfismat hjá tíu svæðisbundnum bönkum í Bandaríkjunum. Þá eru sex stærri bankar til endurskoðunar hjá fyrirtækinu en í tilkynningu frá Moodys segir að fyrirtækið ætli að einblína á að endurskoða bankakerfið á næstu mánuðum.
Bankabréf í Bandaríkjunum féllu í framvirkum samningum í kjölfarið. Bank of America, JPMorgan Chase og Citigroup féllu allir um rúmt 1% þrátt fyrir að vera ekki nefndir á nafn í tilkynningu Moodys.
M&T Bank, Pinnancle Financial Partners og Commerce Bancshares voru meðal þeirra banka sem lækkuðu í lánshæfismati. Þá eru Bank of New York Mellon, Northern Trust, State Street og US Bancorp meðal þeirra sem eru til skoðunar hjá fyrirtækinu en Moodys lækkaði einnig lánshæfismat hjá 11 lánastofnunum.
Aðgerðir Moodys eru sagðar gefa vísbendingar um að bankakerfið í Bandaríkjunum sé enn þá viðkvæmt eftir nokkur bankaáhlaup í vor sem ollu því að Silicon Valley Bank og First Republic fóru í gjaldþrot.
Háir stýrivextir halda áfram að hafa áhrif á fjármögnun bandaríska bankakerfisins og hefur virði skuldabréfa og annarra eigna hjá svæðisbundnum bönkum lækkað verulega, segir í tilkynningu Moodys.