Mats­fyrir­tækið Moo­dys hefur á­kveðið að lækka láns­hæfis­mat hjá tíu svæðis­bundnum bönkum í Banda­ríkjunum. Þá eru sex stærri bankar til endur­skoðunar hjá fyrir­tækinu en í til­kynningu frá Moo­dys segir að fyrir­tækið ætli að ein­blína á að endur­skoða banka­kerfið á næstu mánuðum.

Banka­bréf í Banda­ríkjunum féllu í fram­virkum samningum í kjöl­farið. Bank of America, JP­Morgan Chase og Citigroup féllu allir um rúmt 1% þrátt fyrir að vera ekki nefndir á nafn í til­kynningu Moo­dys.

M&T Bank, Pinnanc­le Financial Partners og Commerce Bancs­hares voru meðal þeirra banka sem lækkuðu í láns­hæfis­mati. Þá eru Bank of New York Mellon, Northern Trust, Sta­te Street og US Bancorp meðal þeirra sem eru til skoðunar hjá fyrir­tækinu en Moo­dys lækkaði einnig láns­hæfis­mat hjá 11 lána­stofnunum.

Að­gerðir Moo­dys eru sagðar gefa vís­bendingar um að banka­kerfið í Banda­ríkjunum sé enn þá við­kvæmt eftir nokkur banka­á­hlaup í vor sem ollu því að Silicon Vall­ey Bank og First Repu­blic fóru í gjald­þrot.

Háir stýri­vextir halda á­fram að hafa á­hrif á fjár­mögnun banda­ríska banka­kerfisins og hefur virði skulda­bréfa og annarra eigna hjá svæðis­bundnum bönkum lækkað veru­lega, segir í til­kynningu Moo­dys.