Velta Stefnu hug­búnaðar­húss á Akur­eyri nam 755 milljónum króna í fyrra og jókst um 28% frá fyrra ári. Starfsemi Stefnu má flokka í tvær tekjustoðir, annars vegar veflausnir og hins vegar ráðgjöf og hugbúnaðarþróun henni tengdri.

„Áhersla Stefnu var á árum áður að stærstum hluta á veflausnir og við höfum verið eitt af stærri hugbúnaðarhúsum landsins á því sviði, þ.e. að setja upp vefsíður og sinna alls kyns vefforritum,“ segir Björn Gíslason, framkvæmdastjóri Stefnu.

„Í þessum hluta starfseminnar erum við bæði að nota okkar eigin lausnir ásamt leiðandi lausnum í vefumsjónarkerfum. Við fylgjumst vel með þróun lausna á markaðnum til þess að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á það sem hentar þörfum þeirra best,“ segir Björn og bætir við að Stefna búi m.a. yfir mikilli þekkingu í algengustu forritunarmálum.

Stefna leggur mikið upp úr langtímasamböndum við viðskiptavini sína. Meðal viðskiptavina félagsins er Heklu, Orkuveitan og dótturfélög og Berjaya hótelkeðjan.

„Þó við tökum að okkar mörg ráðgjafaverkefnu þar sem við erum að vinna í hugbúnaðarlausnum viðskiptavina, þá erum við einnig að hýsa og reka margar af þeim lausnum sem við búum til. Við það myndast oft viðskiptasambönd til lengri tíma. Fyrir vikið erum við að þjónusta yfir fimm hundruð viðskiptavini á landinu.“

Ráðgjöfin vegur orðið þyngra

Þó vefsíðugerð og veflausnir Stefnu sé sá starfsþáttur sem félagið er hvað þekktast fyrir þá vegur ráðgjafarhluti starfseminnar og hugbúnaðarþróun henni tengdri orðið þyngra í rekstrinum hvað veltu varðar.

„Við höfum tekið þátt í opinberum útboðum um stafrænar lausnir og hlotið brautargengi í þeim. Við höfum m.a. verið að vinna fyrir Stafrænt Ísland ásamt teymum frá öðrum hugbúnaðarhúsum og starfsfólki Stafræns Íslands,“ segir Björn.

„Undanfarin misseri hefur okkar verkefni fyrir Stafrænt Ísland falist að mestu í efnishönnun og forritun stofnanavefa. Þetta snýst ekki aðeins um að búa til undirsíður á Stafrænu Íslandi, taka gamla efnið og hlaða því aftur inn, heldur erum við að huga að því hvernig efni og lausnir stofnana er komið á framfæri við notendur. Við erum að greina notendaþarfirnar og út frá því að endurhugsa hvernig best er að setja efnið upp.“

Viðhalda samkeppnishæfni með háu þjónustustigi

Björn segir að samkeppnin á markaðnum sé hörð en að sama skapi sé eftirspurnin mikil. Fjöldi fyrirtækja starfi á markaði í veflausnargerð, mörg skjótist upp og önnur fara, en mengi fyrirtækja sem keppast um stærri verkefnin sé minna. Hvað erlenda samkeppni varðar segir Björn að áhersla á íslenskan markað sé mikilvæg.

„Við erum að vinna fyrir fjölbreytta flóru viðskiptavina, allt frá einyrkjanum upp í sum af stærstu fyrirtækjum landsins ásamt sveitarfélögum, stofnunum og ríkið. Margir af þessum aðilum eru bara í þannig rekstri að ég held þeim hugnist ekki sérstaklega að útvista verkefnum erlendis. Við höfum þannig reynt að viðhalda samkeppnishæfni okkar út frá góðri þjónustu og virku samtali við viðskiptavini.“

Spurður hvort hann telji samþjöppun líklega á markaðnum, kveðst Björn ekki viss hver þróunin verði í þeim efnum en það séu þó án efa tækifæri til þess.

Fréttin er hluti af nánari umfjöllun um starfsemi Stefnu sem birtist fyrst í Viðskiptablaði vikunnar.