Veislu- og viðburðarsalurinn Sjáland í Garðabæ hefur opnað á ný eftir að hafa verið lokaður um nokkurra mánaða skeið og hefur fjölskyldan í Múlakaffi tekið við rekstrinum.

„Við erum afar stolt af því að bæta Sjálandi við í framboð okkar á veislu- og veitingaþjónustu. Sjáland er einn glæsilegasti veislu- og viðburðastaður landsins á magnaðri staðsetningu við sjávarsíðuna,“ segir Guðríður María Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Múlakaffis.

Sjáland hefur um margra ára skeið verið einn vinsælasti veislustaður landsins og hafa ófá brúðkaup, afmælisveislur og árshátíðir farið fram í þessum glæsilegu húsakynnum.

Yfirkokkur Múlakaffis er listakokkurinn Eyþór Rúnarsson og hefur hann umsjón með matseðli og áherslum Sjálands í mat og drykk. Múlakaffi var stofnað árið 1962 og í dag rekur Múlakaffi eina stærstu veisluþjónustu landsins.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Við erum nú þegar farin að taka við bókunum fyrir sumarið, síminn hefur varla stoppað síðan að það spurðist út að Sjáland væri að opna aftur. Enda er húsnæðið sérhannað fyrir veislur og viðburði af öllum gerðum,“ bætir Guðríður við.

Múlakaffi mun einnig bjóða upp á fundaaðstöðu fyrir smærri hópa sem verður með útsýni út á voginn.

Líkamsræktarstöðvakeðjan World Class keypti bygginguna fyrir 710 milljónir króna í janúar en Björn Kr. Leifsson, framkvæmdastjóri World Class, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að það væri að minnsta kosti tvö ár í opnun.

Björn sagði þá að veitingastaðurinn kæmi til með að opna fyrst en ýmisleg áform væru þó í tengslum við líkamsræktarstöðina og má þar nefna heita potta og gufuklefa sem væru beintengdir við sjóinn.