Nýsköpun er leiðin fram á við var yfirskrift Iðnþings 2020 sem fór fram síðastliðinn föstudag. Vegna samkomutakmarkana fór þingið að þessu sinni fram í beinni útsendingu frá Silfurbergi í Hörpu í stað fjölmenns viðburðar.
Á Iðnþingi 2020 var kastljósinu beint að því hvernig áskorunum um fjölgun nýrra starfa verður mætt en á þinginu kom fram að fjölga þyrfti störfum um 60 þúsund fram til ársins 2050. Á þinginu var áhersla lögð á að nýsköpun gegni þar veigamiklu hlutverki, hvort heldur er í rótgrónum fyrirtækjum eða nýjum sprotafyrirtækjum.
Logi Bergmann stýrði þinginu og umræðum. Ávörp fluttu Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, og Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, ræddu við Loga um hvernig mæta á áskorunum um fjölgun starfa.
Í fyrri umræðum um fjármögnun í nýsköpunarumhverfinu tóku þátt Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris, Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, aðstoðarforstjóri CRI og Sigurður Ragnarsson, forstjóri ÍAV.
Í seinni umræðum um nýjar stoðir í útflutningsgreinum tóku þátt Sesselja Ómarsdóttir, framkvæmdastjóri lyfjagreiningardeildar Alvotech, Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, og Ágústa Guðmundsdóttir, annar tveggja stofnenda Zymetech.
Þá færði Árni Sigurjónsson, formaður SI, fyrrverandi formanni, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, þakklætisvott en Guðrún lét af formennsku samtakanna í vor eftir 6 ára setu.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, var með samantekt í lok þingsins. Á milli dagskrárliða var vitnað til orða nokkurra forkólfa í íslenskum iðnaði.
- Gestir komu úr ýmsum áttum á iðnþingið, þar á meðal frá Samtökum atvinnulífsins, en hér að ofan má sjá þau Ásdís Kristjánsdóttur aðstoðarframkvæmdastjóri samtakanna og Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri þeirra.
- Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Árni Sigurjónsson formaður Samtaka iðnaðarins sátu og hlustuðu á erindin.