Breska bíókeðjan Cineworld Group, móðurfélag Regal Cinemas, sótti um greiðslustöðvun í Bandaríkjunum í dag. Cineworld er næst stærsta bíókeðja heims á eftir bandarísku keðjunni AMC.

Þrátt fyrir batnandi miðasölu síðustu mánuði þá er hún ekki komin á sama stað og fyrir faraldurinn. Í umfjöllun WSJ segir að úrval kvikmynda á næsta mánuðum sé af skornum skammti vegna minni framleiðslu, seinkunar á frumsýningum auk þess sem sumar kvikmyndir hafi farið beint inn á streymisveitur vegna óvissunnar í Covid-faraldrinum.

Skuldir Cineworld nema yfir 5 milljörðum dala og félagið á yfir höfði sér ríflega eins milljarðs dala skaðabótakröfu vegna samningsrofs eftir að hafa fallið frá samruna við kanadísku bíókeðjuna Cineplex.

Cineworld, sem rekur tæplega 800 bíóhús, eignaðist Regal keðjuna árið 2018 fyrir 3,6 milljarða dala eða sem nemur yfir 500 milljörðum króna á gengi dagsins. Ísraelska Greidinger-fjölskyldan er stærsti hluthafi Cineworld með yfir 20% hlut.