Forstjóri Zurich, eins stærsta vátryggingafélags Evrópu, varar við því að netárásir gætu orðið „ótryggjanlegar“ ef tjón og röskun af þeirra völdum halda áfram að vaxa.
Stjórnendur í tryggingageiranum hafa á síðustu árum varað við kerfislægri áhættu vegna þátta á borð við farsóttir og loftslagsbreytingar. Búist er við því að kröfur tengdar náttúruhamförum verði yfir 100 milljörðum Bandaríkjadala á þessu ári annað árið í röð.
Mario Greco, sem hefur starfað sem forstjóri Zurich frá árinu 2016, segir í viðtali við Financial Times að áhætta af netárásum sé sú kerfisáhætta sem hann horfi til.
„Það sem á eftir að verða ótryggjanlegt eru netárásir. Hvað ef einhver nær stjórn á mikilvægum hlutum af innviðunum okkar, hverjar yrðu afleiðingarnar af því? [...] Þetta fólk getur verulega raskað lífi okkar.“
Nýlegar netárásir, sem hafa m.a. raskað starfsemi spítala, lokað á flutninga í gegnum eldsneytisleiðslur og verið beint að ríkisstofnunum, hafa aukið áhyggjur innan tryggingageirans af þessari vaxandi kerfisáhættu.
Stigvaxandi tjón af völdum netárása hefur leitt til þess að sum tryggingafélög hafa gripið til neyðarúrræða til að lágmarka fjárhagslega áhættu sína, að því er kemur fram í umfjöllun FT. Ásamt því að hækka verð brugðust nokkur tryggingafélög við með því að breyta skilmálum sínum þannig að viðskiptavinir taki á sig stærri hluta af tjónum.
Greco segir að það séu takmörk fyrir því hversu mikið af eigin tjónum einkageirinn getur tekið á sig vegna netárása. Hann kallar eftir aðkomu opinberra aðila til að koma upp kerfi til að bregðast við áhættu af völdum netárása sem erfitt sé að greina.