Meirihluti neytenda vill að fyrirtæki beiti sér meira í umhverfisvernd. Niðurstaða Internet-könnunar sem 28.000 manns í 51 landi svöruðu er að umhverfisstefna fyrirtækja hefur sífellt meiri áhrif á kauphegðun neytenda.
51% svarenda töldu það mjög mikilvægt að fyrirtæki legðu sitt af mörkum við að bæta umhverfið og 36% töldu það nokkuð mikilvægt.
Aðspurðir hvernig þeir vildu leggja sitt af mörkum til umhverfismála vildu 68% svarenda kaupa „grænni“ vörur á meðan 13% vildu helst gefa peninga til málefnisins. Ekki var spurt hversu mikið meira þeir sem kaupa vildu umhverfisvænni vörur væru til í að borga fyrir slíkar vörur.
Í könnuninni var einnig spurt með hvaða hætti fólk teldi að fyrirtæki ættu að leggja sitt af mörkum við að hægja á loftslagsbreytingum. 40% svarenda töldu að stjórnvöld ættu að takmarka gróðurhúsalofttegundalosun fyrirtækja, 38% vildu að stjórnvöld tækju af skarið í þróun bíla sem losa lítið af gróðurhúsalofttegundum og 37% sögðu að endurvinna ætti meiri úrgang. Velja mátti meira en einn svarmöguleika.
Reuters sagði frá.