Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) hefur lánað samtals 380 milljarða króna til íslenskra aðila frá stofnun bankans 1976. Í dag eru fyrirtæki eins og Isavia, Rarik, Íslandsbanki, Össur og Landsnet með lán frá NIB.
Stefna bankans, sem er í eigu Eystrarstaltsríkjanna og Norðurlanda þ.á.m. Íslands, er að fjármagna verkefni sem auka framleiðni, sjálfbærni og hafa umhverfissjónarmið að leiðarljósi.
Ísland með 0,9% hlut í bankanum
Eigendur bankans eru ríkissjóðir Eystrarsaltslandanna og Norðurlandanna þ.m.t. Íslands sem á 0,9% hlut í bankanum. Mestur hlutinn af lánum bankans liggja í ofangreindum ríkjum eða 97% en bankinn er ekki bundinn af því að lána einungis til aðila í þeim löndum.
André Kusveek, forstjóri NIB segir í viðtali við Viðskiptablaðið, að hlutfallið hafi verið lægra fyrir faraldurinn en meiri eftirspurn frá aðilum innan þessara ríkja vegna faraldursins hafi hækkað það á ný.
„Eftirspurn eftir sjálfbærum og grænum lánum hefur verið að aukast. Það voru ýmiss verkefni í burðarliðnum fyrir faraldur sem frestuðust þegar hann skall á. Síðan þegar hann tók að líða undir lok jókst eftirspurnin og urðum við vör við enn meiri eftirspurn þegar Rússar réðust inn í Úkraínu. Sú innrás jók mjög óvissu á fjármagnsmörkuðum."
Lesa má umfjöllunina í Viðskiptablaðinu í heildina hér.