Norska nýsköpunar- og umhverfisfyrirtækið Rockpore hefur skrifað undir viljayfirlýsingu við Græna iðngarðinn á Suðurnesjum um leigu á ríflega 5 þúsund fermetra húsnæði. Rockpore hyggst hefja starfsemi á seinni hluta næsta árs. Atvinnuuppbygging á Reykjanesi hefur tekið stakkaskiptum á fáeinum árum.
Finn Solvang, framkvæmdastjóri Rockpore, segir að Rockpore hafi undanfarin tvö ár unnið að undirbúningi verkefnisins, sem verður á Íslandi.
„Við erum stolt af því að hafa fundið samstarfsaðila eins og Græna iðngarðinn,“ segir Finn. „Samstarfið gefur okkur færi á að taka okkar fyrstu skref í útrás okkar umhverfisvænu lausna.”
Rockpore hefur þróað lausnir í samstarfi við norskar rannsóknarstofnanir og fyrirtæki til að nýta betur hráefni sem til fellur við aðra framleiðslu. Markmið fyrirtækisins er að þróa afurðir sem samræmast alþjóðlegum umhverfisáherslum og umbreyta hliðarafurðum úr annarri framleiðslu í verðmætar afurðir.
Framleiðsla fyrirtækisins hefur ekki í för með sér neina mengun en vörur þess nýtast sem kolefnisbindandi byggingarefni m.a. til hafnargerðar, og sem undirstaða í vatnsræktunarkerfum (e. hydroponics). Þessi byggingarefni stuðla að sjálfbærum og umhverfisvænum byggingalausnum. Rockpore framleiðir einnig heilsusamlegt fylliefni í gervigrasvelli en Evrópusambandið hefur bannað notkun gúmmíkurls í slíka velli frá og með árinu 2031.
Hrein orka og flutningsleiðir
Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri Græna iðngarðsins, segist mjög ánægður með að þetta frábæra nýsköpunarfyrirtæki skuli velja Græna iðngarðinn fyrir sína framtíðaruppbyggingu
„Rockpore bætist nú í hóp þeirra fimm fyrirtækja sem hafa skrifað undir samninga eða viljayfirlýsingar um leigu í Græna iðngarðinum. Staðsetning nálægt öflugri höfn og flugvelli hafði mikið að segja um ákvörðun Rockpore um staðsetningu auk þess að okkar byggingar bjóða upp á mikinn sveigjanleika, stækkunarmöguleika, aðgang að hreinni orku og samstarf um betri orkunýtingu.”
Auk Rockpore er hefur japanska sprotafyrirtækið iFarm verið með starfsemi í Grænu iðngörðunum frá því haustið 2023. iFarm ræktar japönsk jarðarber í lóðréttum ræktunarkerfum innanhúss.

Kjartan segir að auk þessara tveggja fyrirtækja séu tvö íslensk fyrirtæki á byggingarmarkaði búin að skrifa undir samninga, sem og eitt bandarískt fyrirtæki. Hann segir ekki tímabært að greina frá því hvaða fyrirtæki þetta séu en bandaríska fyrirtækið er skráð á markað í Bandaríkjunum.
Kjartans segir að helstu kostirnir sem fyrirtæki sjái í Græna iðngarðinum og Íslandi sé græna orkan, sem og flutningsleiðirnar.
„Það eru ekki margir staðir í heiminum sem bjóða upp áreiðanlega hreina orku, þar sem afhendingaröryggi er mikið og verð hóflegt. Þar sem það hefur vissulega verið skortur á raforku þá höfum við verið í sambandi við fyrirtæki sem flokkast ekki sem stórnotendur heldur þurfa kannski 2 til 5 megavött. Þetta eru allt fyrirtæki sem eru í virðismikilli framleiðslu.”

Grænu iðngarðarnir
Græni iðngarðurinn, Iceland Eco-Business Park (IEBP), er vistvænn iðngarður staðsettur á Reykjanesi. Garðurinn er verkefni á vegum Reykjanesklasans, sem er í meirihluteigu Kjartans Eiríkssonar og Þórs Sigfússonar.
Í iðngarðinum er lögð áhersla á að byggja upp samfélag fyrirtækja sem vinna saman í bættri nýtingu auðlinda, sjálfbærum lausnum og nýsköpun. Garðurinn býður upp á leiguhúsnæði fyrir skrifstofur, rannsóknir, þróun og framleiðslu fyrir fyrirtæki sem leggja áherslu á sjálfbærni og nýsköpun. Fyrirtæki geta leigt misstórar einingar, sem henta hverju verkefni fyrir sig.
Húsnæðið sem iðngarðarnir eru í var upphaflega byggt fyrir álver Norðuráls í Helguvík. Fyrir um það bil fimm árum var endanlega ljóst að álverið yrði ekki að veruleika en samkvæmt Gunnari Guðlaugssyni, forstjóra Norðuráls, var helsta ástæðan sú að ekki hafði tekist að útvega raforku fyrir álverið.
Grænu iðngarðarnir eru skammt frá Keflavíkurflugvelli og um einum kílómetra frá höfninni í Helgvík. Uppbygging hafnarinnar var samkvæmt samkomulagi sem íslensk stjórnvöld gerðu við Atlantshafsbandalagið (NATO). Höfnin var tekin notkun árið 1989 en fyrir 16 árum var hún löguð og dýpkuð.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.