Norska fyrirtækið Stranda Prolog, sem Marel á 40% hlut í, hefur sótt um gjaldþrotaskipti hjá héraðsdómum í Noregi. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Marels sem eignaðist 40% hlut í norska fyrirtækinu, sem sérhæfir sig í hátæknilausnum fyrir laxaiðnað, í janúar 2021.

Marel mun bókfæra 7 milljóna evra virðisrýrnun, eða sem nemur einum milljarði króna, á þriðja ársfjórðungi vegna eignarhlutarins í Stranda. Staða Standa mun þó ekki hafa áhrif á rekstrarhagnað Marels þar sem norska félagið flokkast sem hlutdeildarfélag.

„Frá og með deginum í dag mun skiptastjóri taka við stjórn fyrirtækisins. Stjórn Stranda vonast til að það verði grundvöllur og eftirspurn fyrir því að reksturinn í heild sinni eða hluta hefjist aftur og að staðan verði skýrari á komandi vikum.“

Sjá einnig: Marel kaupir 40% hlut í Stranda Prolog

Þegar tilkynnt var um fjárfestingu Marels var Stranda Prolog með 25 milljónir evra í árstekjur, eða sem nemur 3,5 milljörðum króna á gengi dagsins, og hundrað starfsmenn í Kristiansund í Noregi.

Marel segir að pantanastaða Stranda hafi verið sterk í upphafi kórónuveirufaraldursins. Hins vegar hafi pöntunum jafnt og þétt fækkað þegar leið á faraldurinn. Samhliða þessu hafi hækkandi aðfangaverð og skortur á hráefnum og starfsfólki til að klára verkefni haft veruleg áhrif á arðsemi og lausafjárstöðu félagsins.

„Þetta er því miður staðan hjá mörgum smærri framleiðendum sem hafa, þrátt fyrir nýstárlega tækni og sterka pantanabók, hafa átt í erfiðleikum með að komast í gegnum erfitt rekstrarumhverfi á síðustu árum,“ segir í tilkynningunni.