Nox Health, bandarískt móðurfélag Nox Medical ehf., var metið á tæplega 20 milljarða króna við kaup bandaríska fjárfestingarsjóðsins Vestar Capital Partners á tæplega þriðjungshlut Umbreytingar, framtakssjóðs í rekstri Alfa Framtaks, í félaginu.
Ætla má að virði Nox Health sé enn meira í dag, enda lagði Vestar Capital Partners einnig vaxtarfé inn í Nox Health með hlutafjáraukningu er gengið var frá viðskiptunum í nóvember á síðasta ári.
Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í upphafi árs greiddi Umbreyting um 3,5 milljarða króna út til hluthafa sinna, með lækkun hlutafjár, í kjölfar sölu á 28,2% hlut félagsins í Nox Holding ehf. Í viðskiptunum var Nox Holding því metið á tæplega 12,5 milljarða króna. Eina eign Nox Holding er 63,82% hlutur í Nox Health. Þar af leiðandi má ætla að Nox Health hafi, eins og fyrr segir, verið metið á hátt í 20 milljarða króna í viðskiptunum.
Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma varð Nox Health til við samruna Nox Medical og FusionHealth árið 2019. Fyrirtækið skiptist í þrjár rekstrareiningar; Nox Medical, Nox Enterprise og FusionSleep og höfuðstöðvar þess eru í Atlanta í Bandaríkjunum.
Verðmætara en fjögur félög á Aðalmarkaði
Til að setja virði Nox Health í samhengi eru fjögur félög á Aðalmarkaði með lægra markaðsvirði en Nox Health þegar þetta er skrifað. Origo er minnst félaga á Aðalmarkaði með um 10 milljarða króna markaðsvirði, Sýn er metið á um 14 milljarða, Nova um 18 milljarða og loks er Iceland Seafood með um 19 milljarða markaðsvirði. 23 félög eru skráð á Aðalmarkað Kauphallarinnar og væri Nox Health því á meðal tuttugu stærstu félaga á Aðalmarkaði ef félagið væri skráð þar.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.