Íslenska fjártæknifyrirtækið Meniga tapaði um 14,5 milljónum evra, eða sem nemur yfir 2 milljörðum króna, á fjárhagsárinu 2021/22 sem lauk 31. mars 2022 en til samanburðar tapaði félagið 7,3 milljónum evra árið áður. Verri afkomu má að stærstum hluta rekja til þess að viðskiptavild, vegna kaupa á sænska fyrirtækinu Wrapp árið 2019, var færð niður um 5 milljónir evra og bókfærð á 2,9 milljónir evra í lok fjárhagsársins.
Eignir Meniga-samstæðunnar, sem er skráð í Bretlandi, voru bókfærðar á 15,4 milljónir evra, eða sem nemur 2,2 milljörðum króna, í lok mars 2022. Eigið fé var neikvætt um 11,7 milljónir evra eða um tæplega 1,7 milljarða króna.
Meniga hefur þróað ýmsar lausnir fyrir stafræna bankastarfsemi. Upphaflega sérhæfði félagið sig í lausn sem aðstoðar fólk að stjórna heimilisfjármálum sínum. Árið 2014 byrjaði Meniga að þróa kerfi utan um sérsniðin endurgreiðslutilboð út frá kauphegðun notenda og hefur m.a. rekið vildarkerfið Fríðu með Íslandsbanka.
Hagnaður og fjárhagsleg endurskipulagning
Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Meniga hafi unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu og ráðist í hagræðingar á síðustu misserum. Félagið lokaði m.a. skrifstofu sinni í Stokkhólmi í byrjun árs. Þá er áformað að útgefin breytileg skuldabréf verði breytt í hlutafé á næstunni sem hefði í för með sér að félagið verði nær skuldlaust.
Ásgeir Örn Ásgeirsson, tæknistjóri og meðstofnandi Meniga, sagði í viðtali við Vísi í byrjun júní að rekstur félagsins standi vel í dag og sé farinn að skila hagnaði.
Í skýrslu stjórnar, sem var undirrituð 26. maí sl., segir að bankar horfi í síauknum mæli til stafrænna lausna. Áhugi á skýjalausnum Meniga, sem félagið hefur lagt aukna áherslu á, hefur stuðlað að vexti í áskriftartekjum. Nýjar vörur, líkt kolefnisreiknivélin Carbon Insight, séu einnig að fá meiri hljómgrunn á markaðnum. Stjórnin telur langtímahorfur félagsins því jákvæðar.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Meniga í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Þar er fjallað nánar um fyrri vaxtaráform félagsins sem gengu ekki eftir.