Þetta er komið út fyrir öll mörk að okkar mati,“ segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, um kaupréttarsamninga við nýjan forstjóra og fjármálastjóra Skeljar fjárfestingafélags, áður Skeljungs, upp á 5% hlut í félaginu sem tilkynnt var um í síðustu viku samhliða ráðningu þeirra.
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, segir að Birta setið hjá við afgreiðslu kaupréttaráætlunar Skeljar í mars, meðal annars þar sem óljóst hafi verið hvernig nýta ætti kaupréttina. Nýtingin sem nú hafi verið tilkynnt samræmist ekki eigendastefnu Birtu. „Að okkar mati er þetta óhóf og út fyrir það sem almennt gengur og gerist í viðskiptum.“
Birta sé ekki mótfallin árangurstengdum greiðslum séu þær hóflegar, gagnsæjar og auðvelt að rökstyðja þær fyrir hluthöfum. Birta hafi og vilji engu síður benda stjórnendum skráðra félaga sem Birta á hluti í að kaupréttir séu ósamhverfir að því leyti að þegar vel gengur njóta bæði hluthafar og stjórnendur góðs af því en þegar illa gengur leggst allur kostnaðurinn á hluthafa félagsins.
Kaupréttarsamningarnir hundruð milljóna virði
Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason, nýráðinn forstjóri Skeljar, gerði kaupréttarsamning upp á um 3% hlut í félaginu í þremur pörtum á næstu þremur til fimm árum sem samtals nemur um 1,3 milljörðum króna að öðru óbreyttu. Ráðgera má að samningurinn sé stærsti einstaki kaupréttarsamningurinn sem gerður hafi verið við einstakling í einu um árabil hér á landi. Þá fær Magnús Ingi Einarsson, nýr fjármálastjóri Skeljar, kauprétt að tæplega 2% hlut á um 700 milljónir króna yfir sama tímabil.
Sjá einnig: Nýr forstjóri fær kauprétt upp á milljarð
Gengi kaupréttanna er 16,428 krónur á hlut að viðbættum 7% vöxtum á ári. Fyrsta viðskiptadaginn eftir að tilkynnt var um ráðningu þeirra hækkaði gengi bréfa Skeljar um 7% upp í 18,3 krónur á hlut.
Miðað við hóflegar forsendur og sambærilega aðferðafræði og gert hefur verið í öðrum skráðum félögum má áætla að virði samninganna nemi vel á þriðja hundrað milljónum króna samkvæmt Black-Scholes formúlunni. Samkvæmt upplýsingum frá Skel verður áætlaður kostnaður við kaupréttina birtur í næsta uppgjöri félagsins þann 5. maí.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .