Origo stóð fyrir viðburði á Grand Hótel skömmu fyrir helgi þar sem nýjar lausnir og nýjungar fyrir vöruhús voru kynntar. Viðburðurinn fór fram undir heitinu Stafrænar lausnir fyrir þinn rekstur og héldu meðal annars erlendir sérfræðingar og framkvæmdastjórar fyrirlestur.
Gestir fengu þar að auki að kynnast nýjungum í handtölvu- og prentlausnum frá Honeywell ásamt raddstýringu í birgðahaldi. Nýjasta kynslóð rafrænna hillumiða frá einum stærsta framleiðanda í heimi var einnig kynnt en með þeim er hægt að sýna stafrænt markaðsefni meðfram vörulýsingum og verðupplýsingum.

Ib Headly-Blythe, framkvæmdastjóri stefnumótunar hjá Honeywell, fjallaði um skort á vinnuafli og vandann sem rekstraraðilar standa frammi fyrir þegar eftirspurn eykst í verslunum. Hann fjallaði um að nýta tæknina til að einfalda ferðalag vörunnar.
Kimmo Yli-Kokko, svæðisstjóri Norður- og Eystrasaltslanda hjá Honeywell Voice Solutions, talaði um lausnir í raddstýringu á lager- og vöruhúsum, nákvæmni þeirra og öryggi sem lausnin veitir með handfrjálsum búnaði fyrir starfsfólk.
Auk þessara fyrirlesara héldu Lennart Diago, viðskiptaþróunarstjóri í Norður- og Eystrasaltslöndum hjá SES-imagotag og Martina Nilson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Strongpoint, erindi um aukna hagkvæmni og byltingarkennda hillumiða.