Iceland Seafood hefur tilkynnt um að félagið hafi skrifað undir viljayfirlýsingu um sölu á meirihluta dótturfélags síns á Bretlandi, Iceland Seafood UK Ltd. Hinn mögulegi kaupandi er sagður virtur aðili í geiranum.

Viljayfirlýsingin er ekki skuldbindandi en er sögð leggja línurnar um mögulegan kaupsamning. Aðilarnir stefna að því að hafa gengið frá viðskiptunum ekki seinna en 17. febrúar 2023. 

Iceland Seafood taldi sig hafa fundið kaupanda að breska rekstrinum í byrjun desembermánaðar en það slitnaði upp úr þeim viðræðum þann 12. desember.

Rekstur Iceland Seafood á Bretlandi hefur verið undir væntingum og hefur félagið meðal annars borið við afleiðingum COVID og óvissu tengdri Brexit. Tilkynnti var um fyrirhugaða sölu breska dótturfélagsins við birtingu uppgjörs þriðja ársfjórðungs þann 17. nóvember.

„Frammistaðan í Bretlandi hefur grafið undan arðsemi samstæðunnar að því marki að stjórnin telur að ekki sé réttlætanlegt að halda áfram á sömu braut,“ sagði í uppgjörstilkynningunni.