Great Place To Work hefur gefið út nýjan lista yfir fimm bestu vinnustaði Íslands. GPTW er alþjóðleg stofnun um vinnustaðamenningu og hefur gefið út topplista yfir bestu fyrirtæki landsins undanfarin fjögur ár. Vottuðum fyrirtækjum fjölgaði úr fjórum árið 2022 í ellefu árið 2023.

Efstu fimm fyrirtæki landsins á listanum eru Kolibri sem er í fyrsta sæti, Smitten Dating er í öðru sæti, Tryggja í því þriðja, 1939 Games er í fjórða sæti og DHL Express í því fimmta.

„Starfsemi Great Place To Work á Íslandi hefur vaxið mjög undanfarið ár og virðast fyrirtæki og stofnanir í auknum mæli nýta sér sérfræðiþekkingu GPTW með því að ganga til samstarfs og veita innsýn í sína vinnustaðamenningu. Great Place To Work á sér meira en 30 ára sögu og vottaði yfir 20.000 fyrirtæki á síðasta ári en er svo til nýtt á íslenskum markaði,“ segir Ingibjörg Ýr Kalatschan, viðskiptastjóri GPTW á Íslandi.

„Við viljum vita hvað er mikilvægt fyrir stjórnendur og hvað skiptir starfsfólkið máli og nálgumst okkar viðskiptavini með langtímasamband í huga. Við veitum ítarlega innsýn byggða á gögnum úr svörum starfsfólksins sem sýna á hvaða sviðum er verið að gera góða hluti og hvar er svigrúm til að bæta úr. Listinn yfir fimm bestu vinnustaði á Íslandi 2023 sýnir vel hvernig vinnustaðamenning skiptir máli í ólíkum atvinnugreinum.“