Nýsköpunarhemillinn Startup Westfjords verður haldinn helgarnar 24. – 25. september og 1. – 2. október á Þingeyri í Dýrafirði. „Við erum í stórkostlegri náttúru, í friði og ró. Það fer óhjákvæmilega annað flæði í gang þegar þú ert í þessu umhverfi og náttúran hjálpar fólki að leysa sköpunarkraftinn úr læðingi.“ segir Birta Bjargardóttir, bankastjóri Blábankans. Auk þess gefst þátttakendum tækifæri til að dvelja á Þingeyri vikuna á milli og hafa vinnuaðstöðu í Blábankanum.
„Það verða hefðbundnir og praktískir dagskrárliðir þar sem farið verður yfir fyrstu skref fyrirtækja. Má þar nefna fjármögnun, lán, styrki, bókhald, markaðssetningu, samfélagsmiðla og margt fleira.“ Blábankinn er nýsköpunar- og samfélagsmiðstöð þar sem hægt er að leigja vinnuaðstöðu til lengri eða skemmri tíma.
Birta segir Startup Westfjords þó skera sig úr frá öðrum nýsköpunarhröðlum. „Á hemlinum eru ýmsir dagskrárliðir sem má ekki finna í hinum hefðbundnu nýsköpunarhröðlum. „Við förum í núvitundaræfingar og eftir árstíma er farið í berjamó, tínt sveppi eða farið í sjósund.“
Slagorð hemilsins er „Slow down to start up“ en Birta segir mikilvægt fyrir hugmyndasköpun að fólk dreifi huganum og leyfi hlutunum að koma af sjálfu sér, að vera í svokölluðu hægstreymi. „Það er þekkt sálfræði að þegar þú dreifir huganum og hugsar um eitthvað annað en verkefnið framundan, þá hjálpar það þér um leið að vinna verkefnið.“
Einkatímar með ráðgjöfum
Þá geta þátttakendur pantað einkatíma með ráðgjöfum þegar þeim hentar á meðan á hemlinum stendur. Ráðgjafar á Startup Westfjords koma frá ýmsum sviðum atvinnulífsins. Í ár verða fyrirlesarar meðal annars Erla Símonardóttir, fjármálastjóri Búseta og áður hjá Deloitte, Gunnar Thorberg, markaðssérfræðingur og einn eigenda Kapals, Agnes Arnardóttir, verkefnastjóri brothættra byggða á Þingeyri og annarra verkefna hjá Vestfjarðarstofu, Ketill Berg Magnússon, mannauðsstjóri Norður-Evrópu og Rússlands hjá Marel og Ingibjörg Rósa Björnsdóttir, kynningarstjóri Háskólaseturs Vestfjarða og fyrrverandi háskólakennari í blaðamennsku.
Á hemlinum geta þátttakendur þróað viðskiptahugmynd, hversu skýr eða óskýr sem hún er í upphafi. „Það eru mörg dæmi um hugmyndir sem hafa sprottið upp úr hemlinum. Einhverjir hafa jafnvel tekið þátt en síðar meir unnið að öðru verkefni í framhaldinu. Svo eru auðvitað einhverjir sem voru komnir eitthvað áfram með hugmynd og komu svo til okkar og héldu áfram með þá hugmynd. Verkefnin sem eru valin til þátttöku á nýsköpunarhemlinum mega vera á hinum ýmsu stigum,“ segir Birta.
Umsóknarfrestur er til 31. ágúst og geta allir sótt um á vefsíðu Blábankans.