Sprotafyrirtækið Magnavita hefur undirritað samstarfssamning við Háskólann í Reykjavík. Verkefnið snýst um að þróa og bjóða eins árs nám fyrir fólk á þriðja æviskeiði. Það hefur yfirskriftina Magnavita-námið í HR og verður undir merkjum Opna háskólans í HR. Skráning hefst í október.

„Markmiðið er að fjölga góðum, heilbrigðum og spennandi æviárum fólks á aldrinum 55 til 75 ára, með markvissu námi til að efla hreysti, lífsfyllingu, félagsleg tengsl og virkni. Gert er ráð fyrir að nemendur séu ýmist um það bil að ljúka föstu starfi eða hafi lokið því," segir Guðfinna S. Bjarnadóttir, einn af stofnendum Magnavita og fyrrverandi rektor HR.

Magnavita-námið verður eins árs nám, sem skiptist á tvær annir, vorönn og haustönn. Námið hefst núna í janúar 2023 og því lýkur með útskrift í desember.

10 fjölbreytt námskeið

Þetta nýja nám samanstendur af 10 námskeiðum, sem kennd eru af sérfræðingum í fremstu röð. Nálgunin er fjölbreytt og byggir á gagnreyndri þekkingu og niðurstöðum rannsókna. Námið er einstaklingsmiðað með heilsu- og styrktarmati í upphafi og við lok náms. Auk þess er mikið um hópastarf og spennandi verkefni. Gert er ráð fyrir að nemendur skilgreini í náminu eigin stefnu, markmið og framtíðarsýn fyrir þriðja æviskeiðið.

„Umbreytingarferlið við starfslok er ein stærsta breytingin sem verður í lífi margra. Þegar föstu starfi er lokið skiptir miklu máli að meta stöðuna og skilgreina áhugaverða framtíð. Magnavita-námið snýst um að styrkja andlega, líkamlega, félagslega og fjárhagslega hreysti nemenda. Við sjáum þessa hagnýtu menntun sem ögrandi tækifæri fyrir einstaklinga sem vilja fjárfesta í framtíð sinni og gera þriðja æviskeiðið að því besta í lífinu; tímabili sem einkennist af gleði og hreysti,“ bætir Guðfinna við.

Stofnendur Magnavita ásamt Guðfinnu eru þau Benedikt Olgeirsson og Sigríður Olgeirsdóttir. Bakgrunnur Benedikts er í stjórnun, rekstri og umbreytingaverkefnum og Sigríður hefur um langt árabil verið stjórnandi í upplýsingatækni, hátækni, þróun og fjármálageiranum. Guðfinna sjálf er doktor í atferlisfræði og hefur einbeitt sér að stjórnun, stefnumótun og nýsköpun.

Áhersla á menntun fyrir öll æviskeið

Í tilkynningu HR segir að þjónustustigið við nemendur verði hátt og svipað því sem gerist í áþekkum námslínum af lengra taginu við HR og Opna háskólann. Námið verði við allra hæfi, en krefst ákveðinnar grunnfærni í ensku og reynslu af tölvunotkun. Kennt verður einn dag í viku, á þriðjudögum, í húsnæði Opna háskólans í HR.

„Hlutverk Háskólans í Reykjavík er að undirbúa samfélagið fyrir framtíðina. Í stefnuáherslum háskólans er afgerandi áhersla á menntun fyrir öll æviskeið og við höfum lengi horft til þess að styrkja námsframboð okkar í því samhengi. Samstarfið við Magnavita er því bæði tímabært og viðeigandi. Námið er þróað af reynslumiklu fólki með djúpar rætur í íslensku atvinnulífi. Það verður spennandi að ýta því úr vör og sjá viðtökur almennings,“ segir Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR.