Nóvember­mánuður var öflugasti mánuður ársins á hluta­bréfa­markaði og lauk honum með mikilli hækkun Dow Jones vísi­tölunnar í gær sem hefur ekki verið hærri á árinu.

Ný gögn úr við­skipta­ráðu­neyti Banda­ríkjanna benda til þess að neysla sé að dragast saman og verð­bólga að hjaðna sem vekur vonir fjár­festa um að vaxta­hækkunar­ferli Seðla­bankans sé lokið, samkvæmt The Wall Street Journal.

Helstu hlutabréfavísitölur hækkuðu

Þrjár helstu hluta­bréfa­vísi­tölur Banda­ríkjanna hækkuðu allar um meira en 8% í mánuðinum. Nas­daq vísi­talan, þar sem tækni­fyrir­tækin eru þunga­miðjan, fór upp um 10,7% í mánuðinum og S&P 500 vísi­talan hækkaði um 8,9%.

Dow Jones hækkaði um 520 punkta í gær og fór upp um 1,5%. Dow Jones hækkaði um 8,8% í nóvember­mánuði en það mun vera mesta mánaðar­leg hækkun vísi­tölunnar síðan í janúar 2022.

Á­vöxtunar­krafa ríkis­skulda­bréfa til tíu ára lækkaði á sama tíma og fór niður í 4,349% undir lok mánaðar en krafan var yfir 5% í lok októ­ber.