Nóvembermánuður var öflugasti mánuður ársins á hlutabréfamarkaði og lauk honum með mikilli hækkun Dow Jones vísitölunnar í gær sem hefur ekki verið hærri á árinu.
Ný gögn úr viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna benda til þess að neysla sé að dragast saman og verðbólga að hjaðna sem vekur vonir fjárfesta um að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé lokið, samkvæmt The Wall Street Journal.
Helstu hlutabréfavísitölur hækkuðu
Þrjár helstu hlutabréfavísitölur Bandaríkjanna hækkuðu allar um meira en 8% í mánuðinum. Nasdaq vísitalan, þar sem tæknifyrirtækin eru þungamiðjan, fór upp um 10,7% í mánuðinum og S&P 500 vísitalan hækkaði um 8,9%.
Dow Jones hækkaði um 520 punkta í gær og fór upp um 1,5%. Dow Jones hækkaði um 8,8% í nóvembermánuði en það mun vera mesta mánaðarleg hækkun vísitölunnar síðan í janúar 2022.
Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa til tíu ára lækkaði á sama tíma og fór niður í 4,349% undir lok mánaðar en krafan var yfir 5% í lok október.