Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í dag úr gildi að öllu leyti ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (SKE) frá árinu 2020 um að sekta Símann vegna ólíkra viðskiptakjara við sölu á Enska boltanum á Símanum Sport. Eftirlitinu ber að endurgreiða Símanum 200 milljónir króna með dráttarvöxtum.

Í tilkynningu Símans til Kauphallarinnar segir að dómurinn muni hafa áhrif á afkomu Símans þar sem endurgreiðsla frá Samkeppniseftirlitinu verður tekjufærð á fjórða ársfjórðungi. EBITDA spá Símans verður færð upp m.t.t. niðurstöðunnar og verðu nú á bilinu 6,0-6,3 milljarðar króna.

Samkeppniseftirlitið lagði upphaflega á 500 milljóna króna sekt á Símann. Samkeppnisaðilinn Sýn hafði kvartað til SKE vegna kynningar, verðlagningu og skilmálum Símans í tengslum við Enska Boltann. Hann kostaði 1.000 krónur á mánuði með Heimilispakka Símans en 4.500 krónur þegar þjónustan var seld sér. Var þá talið að síminn hafði brotið gegn sáttinni frá árinu 2015 með því að tvinna saman fjarskiptaþjónustu og línulega sjónvarpsþjónusta.

Áfrýjunarnefnd Samkeppnismála staðfesti ákvörðun SKE að hluta og lækkaði sektina niður í 200 milljónir króna. Bæði Síminn og SKE kærðu úrskurðinn til Héraðsdóms Reykjavíkur.

Uppfært: Í tilkynningu á heimasíðu SKE segist eftirlitið ætla að fara ítarlega yfir forsendur héraðsdóms og taka í framhaldinu ákvörðun um hvort vísaberi málinu til Landsréttar.