Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,5% í 5,4 milljarða veltu í dag en hlutabréf 16 af 22 félögum aðalmarkaðarins voru græn í viðskiptum dagsins. Ölgerðin leiddi hækkanir en gengi félagsins hækkaði um 3,3% í ríflega 300 milljóna veltu.
Hlutabréfaverð Ölgerðarinnar stóð í 11,1 krónu við lokun Kauphallarinnar og hefur ekki verið hærra frá skráningu félagsins í júní. Gengið er nú 24,7% yfir 8,9 krónu útboðsgenginu í tilboðsbók A, þ.e. fyrir tilboð undir 20 milljónum króna, í frumútboði Ölgerðarinnar í maí. Þá er gengið komið 10,7% yfir 10,03 krónu útboðsgengið í tilboðsbók B í sama útboði.
Hlutabréf Nova hækkuðu næst mest eða um 2,8% í 183 milljóna veltu en gengi fjarskiptafélagsins hafði lækkað nokkuð síðustu tvær vikurnar. Hlutabréfaverð Nova stendur nú í 4,48 krónum og er 12% undir útboðsgenginu í frumútboði Nova í júní síðastliðnum.
Mesta veltan var með hlutabréf Marels sem hækkuðu um 1,1% í 1,1 milljarðs króna viðskiptum. Gengið hefur hækkað um 6,7% frá lokun markaða á mánudaginn og stendur nú í 540 krónum.
Hlutabréf Arion banka og Íslandsbanka hækkuðu bæði um meira en 4% í vikunni. Gengi Íslandsbanka hækkaði fimmta daginn í röð og stóð í 135,2 krónum á hlut við lokun markaða, sem er 71% yfir útboðsgenginu í frumútboði bankans í júní 2021. Gengi Arion stóð óbreytt í 181 krónum í 1,1 milljarðs króna veltu í dag.