Hráolíuverð hefur lækkað talsvert á síðustu dögum. Þá hefur Brent hráolían lækkað um 8,2% frá því í gær og er tunnan komin niður í 96,5 dali. WTI hráolían hefur einnig lækkað um 7% á sama tíma og farið niður í 90,3 dali á tunnu.

Lækkandi hráolíuverð má rekja til áhyggna fjárfesta af því að verðbólgan og viðbrögð við henni muni valda samdrætti í heimshagkerfinu og um leið draga úr eftirspurn eftir olíu.

Hráolíuverð hefur sveiflast mikið síðan rússnesk stjórnvöld réðust inn í Úkraínu fyrir um hálfu ári síðan. Á öðrum ársfjórðungi var meðalverð á tunnu af Brent hráolíu 114 dalir.

Í mars mánuði, stuttu eftir innrásina, náði olíuverð sögulegu hámarki. Þá fór verð á WTI hráolíu upp í 123,7 dali á tunnu og Brent hráolían var komin upp í 128 dali á tunnu.