Húsnæði N1 við Fellsmúla, þar sem rekin er bílaþjónusta og hjólbarðaverkstæði, skemmdist illa í eldsvoða í gær. Í tilkynningu frá N1 segir að ekki sé hægt að segja til um það hvenær bílaþjónusta N1 opni aftur í húsinu fyrr en búið sé að meta skemmdir.
Þar að auki verður ekki hægt að meta hversu miklar skemmdir urðu á húsnæðinu fyrr en lögreglan hefur lokið rannsókn sinni á eldsupptökum. Eldurinn takmarkaðist við húsnæði N1 en tjón varð í nærliggjandi húsnæði vegna reyks og vatns.
N1 segir að sjálfvirkur brunaboði hafi gert stjórnstöð Securitas viðvart um reyk stuttu eftir að húsinu var lokað. Starfsmaður, sem hafði nýlega yfirgefið vinnustaðinn, snéri aftur á vettvang og hringdi strax í 112 eftir aðstoð.
Að sögn N1 verður haft samband við viðskiptavini sem geymdu dekk í Fellsmúlanum og þeir upplýstir um hvar þeir geti sótt dekk sín þegar það liggur fyrir. Dekkin sem skemmdust í eldsvoðanum verða einnig bætt.