Iceland Hotel Collection by Berjaya, sem hét áður Icelandair Hotels, hefur opnað hótelið Iceland Parliament Hotel á Landsímareitnum við Austurvöll. Heildarfjöldi herbergja verður alls 163 þegar framkvæmdum lýkur í vor, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.
Hótelið er hluti af Curio Collection, safni hótela innan Hilton Worldwide sem hönnuð eru með skírskotun í nærumhverfi sínu og sögu staðarins. Þetta er annað hótel Berjaya Iceland Hotels innan Curio safnsins en félagið rekur einnig Reykjavík Konsúlat hótelið á Hafnarstræti.
Hönnun Landsímareitsins var unnin af THG arkitektastofu og er Freyr Frostason yfirhönnuður hótelsins.
Endurbyggðu gamla Sjálfstæðissalinn
Gamli Sjálfstæðisalurinn, sem opnaði árið 1950, hefur verið endurgerður í upprunalegri mynd en bæði ytra og innra byrði salarins er friðað. Eins fær Gamli Kvennaskólinn nýtt hlutverk sem veislurými.
Hjá Jóni er nýr veitingastaður hótelsins sem snýr út að Austurvelli en nafnið vísar til Jóns Sigurðssonar forseta. Á veitingastaðnum er lögð áhersla á fjölbreytta rétti með alþjóðlegu ívafi.
Á jarðhæð er bar sem fengið hefur nafnið Telebar, og er heitið skírskotun í fyrrum starfsemi hússins sem áður hýsti höfuðstöðvar Landsímans. Á Telebar verða framreiddar kaffiveitingar á daginn og úrval vína og kokteila á kvöldin.
Í almenningsrýmum hótelsins verður til sýnis íslenskt myndlistarsafn sem er í einkaeigu. Boðið verður upp á skipulagða leiðsögn um húsið á komandi ári fyrir þau sem vilja fræðast um íslenska myndlist og húsakynni hótelsins.
Í kjallara aðalbyggingar hótelsins er heilsulind ásamt æfingaaðstöðu, og norðanvert í byggingaklasanum eru fundarsalir.
„Það má segja að byggingarnar verði nú aðgengilegri almenningi en nokkru sinni fyrr,“ segir Hildur Ómarsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Iceland Hotel Collection, sem stýrt hefur framkvæmdum við hótelið fyrir hönd rekstraraðila.
„THG arkitektum hefur tekist að skapa einstaklega glæsilega umgjörð fyrir hótel- og veitingarekstur okkar sem nú tökum við reitnum og hefjum loks starfsemi af fullum krafti. Við viljum virða merka sögu reitsins og gera henni góð skil í okkar starfsemi, en á sama tíma hleypa nýju lífi í þau hús sem hafa í allt of langan tíma verið án starfsemi eða til lítillar prýði fyrir þennan mikilvæga samkomustað okkar Íslendinga við Austurvöll og Alþingi Íslands.“