Þær hækkanir á hlutabréfamörkuðum sem urðu í heimsfaraldrinum gengu víða til baka á árinu. Úrvalsvísitalan er nú á áþekkum stað og fyrir tveimur árum, áður en heimsfaraldurinn hófst. Þá lækkaði gengi meirihluta skráðra félaga á árinu þó rekstur margra þeirra hafi gengið með ágætum.

Versnandi verðbólgu- og hagvaxtarhorfur í heiminum, stýrivaxtahækkanir, stríðið í Úkraínu og aukin spenna milli Kína og Bandaríkjanna eru meðal helstu skýringa.

Mestu munaði um að Marel, sem hefur vegið langþyngst í íslensku úrvalsvísitölunni undanfarin ár, lækkaði um 43% á árinu.

Hástökkvari ársins var hins vegar Origo sem hækkaði um 37,5% á árinu. Félagið seldi 40% hlut sinn í Tempo á 28 milljarða króna í október. Megnið af kaupverðinu var greitt út í arð í desember. Nokkrum dögum síðar keypti sjóður Alfa Framtaks fjórðungshlut í Origo og boðaði yfirtökutilboð í afganginn þar sem m.a. verður horft til þess að afskrá félagið.

Þá gekk rekstur útgerðarfélaganna Síldarvinnslunnar og Brims einnig vel á árinu og hækkuðu þau næst mest á eftir Origo á árinu.

Sölu- og fiskvinnslufélagið Iceland Seafood lækkaði hins vegar mest allra eða um 59%.

Þrjú fyrirtæki komu inn á aðalmarkað á árinu. Ölgerðin reið á vaðið í byrjun júní og hefur haldið ágætum dampi síðan. Aðra sögu er að segja af Nova sem fór á markað síðar í júnímánuði. Gengi Nova féll nokkuð skarpt eftir útboðið og var stækkun frumútboðs félagsins meðal þess sem fór öfugt ofan í fjárfesta. 

Alvotech fór svo á aðalmarkað í desember, og tók stökk upp á við í kjölfarið, eftir að hafa verið skráð á First North markaðinn hér heima og Nasdaq markaðinn í Bandaríkjunum síðasta sumar.

Nokkur eftirvænting var fyrir því þegar Ísland var fært upp um gæðaflokk hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell í september. Innlendir fjárfestar brenndu sig þó illa þar sem innflæði að utan, sem uppfærslunni fylgdi, var mætt með sölu annarra erlendra aðila á bréfum í Kauphöllinni, svo úr varð skarpt verðfall.

Minni hreyfing var í öðru skrefi af þremur við uppfærslu FTSE Russell á Íslandi í desember. Þekkt erlend fjárfestingafélög á borð við Vanguard eru farin að birtast á listum yfir stærstu hluthafa íslenskra félaga í kjölfar uppfærslunnar.