„Þetta eru allt málaflokkar sem eru tiltölulega ungir og eru enn í ákveðinni mótun, en þeir eru gríðarlega mikilvægir og hafa sífellt meira vægi í daglegum rekstri allra fyrirtækja,“ segir Eyþór Sigfússon, framkvæmdastjóri og stofnandi HSE Consulting, sem er sérhæft ráðgjafa- og þjónustufyrirtæki sem sinnir stefnumótun á sviði sjálfbærni ásamt öryggis-, umhverfis- og gæðamálum.  Í dag telur fyrirtækið fimm starfsmenn sem  allir búa yfir fjölbreyttri reynslu. 

„Reksturinn fer stækkandi og sjáum fram á að bæta meira við. Aukin vitundavakning og gagnsæi um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, og umhverfismál er jákvæð og það eru greinilega tækifæri fólgin í því að sérhæfa sig í þessum málaflokkum.“

Upphafið

Eyþór er menntaður umhverfisverkfræðingur frá háskólanum í Álaborg. Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði þegar hann starfaði sem yfirmaður HSE-mála (Health, Safety and Environment) hjá Alvotech. En fram að því hafði hann öðlast mikla og víðtæka reynslu hjá stórfyrirtækjum í alþjóðlegu umhverfi.

Eftir útskrift starfaði hann sem verkefnastjóri hjá Shell. „Þar kemur í ljós áhugi minn á skipulagi, ferlum, stjórnkerfum og gæðastjórnun“. Fannst mikil hagræðing í því að innleiða þekktar alþjóðlegar starfsvenjur á Íslandi.  Þaðan til Rio Tinto þar sem hann vann í HSE-málum í sex ár, ásamt því að taka þátt í að stækka álverið í Straumsvík og breyta því, en straumhækkunarverkefnið kostaði um 41 milljarð íslenskra króna árið 2010.

Í framhaldi af þeirri reynslu flutti Eyþór til Noregs, þar starfaði hann fyrst hjá AF Decom, sem er fyrirtæki í olíugeiranum. Þaðan fór hann til Rolls-Royce og starfaði sem framkvæmdastjóri gæða-, umhverfis- og öryggismála yfir þúsund starfsmanna verksmiðju í Bergen ásamt fjölda starfstöðva fyrirtækisins í Evrópu og Asíu,

„Íslenskt verklag og vinnubrögð er að mörgu leyti ótrúlega ólíkt því sem fyrirfinnst hjá stórum alþjóðlegum fyrirtækjum, eins og þeim sem ég vann hjá. Okkur langar til að hækka viðmiðin hér.  Það er áskorun sem við höfum ákveðið að takast á við."

Ég fékk að kynnast hvernig svona stór fyrirtæki nálgast hlutina og leysa áskoranir. Ég fann fljótt á mér á það séu tækifæri til þess að nota þekktar og bestu starfsvenjur til úrlausna áskorana hér heima án þess að finna upp hjólið.“

Umhverfis- og öryggismál

Ráðgjöf á sviði umhverfismála felst meðal annars í því að innleiða sjálfbærnimarkmið og setja fingur á kolefnisfótspor og -jöfnun í rekstri. „Umhverfismálin eru orðin þannig að kröfurnar um þau koma fyrst og fremst frá samfélaginu, og fyrirtæki verða í æ ríkari mæli að sýna fram á hvernig þau stýra þessum málaflokkum.“

„Öryggismálin eru svo aðeins fjarlægari en umhverfismálin. Segja má að þar er meira og strangara regluverk og þrýstingurinn komi þaðan en einnig frá verkkaupum.  En það er verk að vinna til að auka öryggismenningu hér heima.. Ein af megináskorunum við verklegar framkvæmdir felst í því að það þarf að byggja upp öryggiskúlturinn á skömmum tíma. Fólk vinnur í stuttan tíma og sumir bara í nokkra daga og mikil breyting getur verið á verkstað dag frá degi. Menn þurfa sífellt að vera á tánum og vakta áhættuþætti í starfsumhverfi starfsmanna sinna.“

Nánar er rætt við Eyþór í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.