Ösp líftryggingarfélag hf. hefur skilað inn umsókn um starfsleyfi til fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Félagið hyggst bjóða viðskiptavinum sínum upp á líf- og persónutryggingar með fjölbreyttu vöruframboði og leggja áherslu á að veita faglega og persónulega þjónustu með stafænum lausnum sem þekkjast ekki fyrir annars staðar, að því er kemur fram í tilkynningu.
Ösp ætlar jafnframt að tryggja að upplifun viðskiptavina af kaupum á tryggingum félagsins verði í senn einföld, gagnsæ og skemmtileg þar sem öllum munu gefast tækifæri til að hafa áhrif á verðlagningu á tryggingar sínar með hreyfingu og hollum lífsstíl.
Elmar Hallgríms Hallgrímsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins. Elmar er með LL.M gráðu frá University of Pennsylvania og embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Þá hefur hann lokið meistaranámi í fjármálum fyrirtækja frá Háskóla Íslands. Þá hefur Elmar einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og hefur leyfi til að starfa sem héraðsdómslögmaður. Elmar hefur m.a. starfað sem framkvæmdastjóri hjá Samiðn, hjá 365 miðlum og Arion banka. Elmar hefur einnig setið í stjórn Samkeppniseftirlitsins, LÍN og ýmissa lífeyrissjóða.
Elmar kveðst spenntur fyrir að takast á við þetta krefjandi verkefni og að félagið ætli sér stóra hluti á næstu misserum enda mikil tækifæri á þessum markaði til vaxtar. „Við ætlum að bjóða upp á nýjungar, bæði í vöruframboði sem og hvernig við nálgumst viðskiptavini. Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur og við ætlum að hreyfa verulega við tryggingarmarkaðinum hér á landi með hagsmuni neytenda að leiðarljósi.“
Formaður stjórnar Aspar er Baldvin Samúelsson en hann hefur áralanga reynslu af vátryggingarstarfsemi, bæði hér á landi og erlendis. Baldvin hefur m.a. sinnt ráðgjöf, stýrt vöruþróun og sölu- og markaðsmálum á sviði vátrygginga.
Baldvin Samúelsson, formaður stjórnar Aspar:
„Félagið ætlar sér að koma með ferskan andblæ sem þorir að hreyfa við norminu nokkuð eins og Nova hefur tekist í rótgrónu umhverfi, ekkert ósvipað og Ösp mun þurfa takast á við. Í nútímasamfélagi eru gerðar kröfur um hátt þjónustustig hvenær sem er og hvar sem er, en ekki á skilgreindum skrifstofutíma, þarfir okkar Íslendinga eru að breytast með hraðari hætti en núverandi vöruframboð á þessum markaði býður upp á. Samkeppnisforskot Aspar liggur þar, við ætlum að marka spor með nýjungum og leggja mikla áherslu á sjálfbærni og sterka samfélagslega aðkomu í nálgun okkar inn á markaðinn þegar að því kemur að félagið fær starfsleyfi.“