Versnandi efnahagshorfur í stærri hagkerfum um allan heim og líkur á auknu aðhaldi bandaríska seðlabankans voru meðal áhyggja fjárfesta í dag á meðan hlutabréfamarkaðir féllu beggja vegna Atlantshafsins.
Eins og oft áður voru það tæknifyrirtæki sem fengu hvað mest að finna fyrir því, en þau eru almennt næmari fyrir sveiflum á efnahagshorfum en markaðurinn í heild enda byggir virði þeirra í meira mæli á væntum framtíðartekjum.
Hækkandi væntir stýrivextir í framtíðinni hafa þar að sama skapi mikil áhrif þar sem þeir rýra virði framtíðartekna í samanburði.
Nasdaq skýrasta birtingarmynd vaxtaóvissu
Tæknirisarnir Amazon og Tesla auk skjákortsframleiðandans Nvidia féllu öll um 3% í dag og streymisveitan Netflix féll um 6%. Heilt yfir féll hin tækniþunga Nasdaq-hlutabréfavísitala um á þriðja prósent á meðan S&P500 vísitalan – sem hefur almennari og breiðari skírskotun – féll um 1,6%.
Í frétt Financial times um málið er haft eftir fjárfestingastjóra eignastýringarisans GAM að fyrrnefnda vísitalan og þróun hennar sé skýrasta birtingarmynd óvissra vaxtavæntinga og áhrifa þeirra á hlutabréfamarkaðinn.