Síðastliðinn fimmtudag samþykkti borgarráð aðgerðaáætlun til að bregðast tafarlaust við stöðunni í leikskólamálum. Í fréttatilkynningu kom fram að átakið myndi skila 553 nýjum plássum fyrir börn í leikskólum borgarinnar á árinu.
Í minnisblaði sem unnið var af skóla- og frístundasviði og umhverfis- og skipulagssviði um framvindu áætlunar um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík kemur fram að upp hafi komið erfið húsnæðismál með reglulegu millibili sem hafi haft áhrif á fjölda leikskólaplássa. Þá kom einnig fram í greinargerð með tillögum stýrihóps um uppbyggingu leikskóla, sem lagðar voru fyrir borgarráð í mars, að spár geri ekki ráð fyrir meiri háttar viðhaldi á húsnæði og þeirri fækkun leikskólaplássa sem það geti hafi í för með sér.
Í svari frá Reykjavíkurborg kemur fram að framkvæmdir vegna slæmrar innivistar séu í gangi í 9 af 63 leikskólum í borginni – oftast vegna myglu. Vegna umfangs framkvæmda hafi starfsemi leikskólanna Sunnuáss, Kvistaborgar, Nóaborgar og Furuskógar verið fluttar að hluta eða alveg. Aftur á móti séu framkvæmdir mismiklar í leikskólunum Vesturborg, Lækjarborg, Grandaborg, Árborg og Rauðhóli, en í sumum þeirra sé verið að fara yfir skólann eftir framkvæmdir og bíða eftir lokayfirferð eða úttektum.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.