Þrektækjaframleiðandinn Peloton tapaði 1,24 milljörðum Bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur 175 milljörðum króna. Félagið hefur skilað tapi sex ársfjórðunga í röð. Þetta kemur fram í grein hjá CNBC. Til samamburðar tapaði Peloton 313 milljónum dala á sama ársfjórðungi í fyrra.

Fyrirtækið segir í tilkynningu að það reikni með að ná jákvæðu sjóðstreymi á seinni helmingi árs 2023. Eftir að faraldrinum lauk hefur fólk fært sig úr heimaræktinni og yfir í líkamsræktarstöðvar. Því telur Barry McCarthy, forstjóri Peloton, að það verði mikil áskorun fyrir félagið að ná fyrri styrk á næstu misserum.

Tekjur Peloton námu 679 milljónum dala á tímabilinu og drógust saman um 28% á milli ára. Tekjurnar voru jafnframt um 40 milljónum dala lægri en greinendur á markaði höfðu gert ráð fyrir.

Sjá einnig: Peloton semur við Amazon

Peloton hefur samið við Amazon um að selja æfingahjólin sín og annan líkamsræktarbúnað í gegnum vefverslun Amazon. Samningurinn við Amazon er nýjasta tilraun Peloton til að reyna að minnka tap félagsins og bæta sjóðstreymið.

Gengi bréfa Peloton hefur hækkað um 20% frá opnun markaða í dag og stendur gengið í 13,5 dölum á hlut.