Sony hefur ákveðið að hækka verð á Playstation 5 leikjatölvunni á fjölmörgum alþjóðlegum mörkuðum. Þetta kemur fram í grein hjá CNBC.

Japanski leikjatölvurisinn ætlar hins vegar ekki að hækka verð á leikjatölvunni á bandarískum markaði, en þess fyrir utan mun tölvan hækka í verði á flestum af stærstu mörkuðum félagsins. Fyrirtækið sagði í tilkynningu að verðbólgutölur í heimshagkerfinu hefðu sett mikinn þrýsting á fyrirtækið að hækka verð.

Í Evrópu mun leikjatölvan fara úr 500 evrum upp í 550 evrur og í Bretlandi hækkar hún um 30 pund, úr 450 pundum upp í 480 pund. Sambærilegar hækkanir má sjá í Japan, Kína, Ástralíu, Mexíkó og Kanada.

Tekjur hjá tölvuleikjaframleiðendum á borð við Sony, Nintendo og Microsoft hafa dregist saman á undanförnum misserum eftir að faraldurinn leið undir lok. Þannig drógust tekjur hjá tölvuleikjadeild Sony saman um 2% milli ára á öðrum ársfjórðungi.