Vladímír Pútín Rússlandsforseti segir að leiðin sem Bretar fari til að velja forsætisráðherra sé „langt frá því að vera lýðræðisleg“. „Fólkið í Bretlandi fékk ekki að taka þátt í kosningunum. Valdaelítan þar í landi fer sínar eigin leiðir,“ sagði Pútín á ráðstefnu í efnahagsráðstefnu í rússnesku borginni Vladívostok. Reuters greinir frá.

Liz Truss, fyrrverandi utanríkisráðherra, tók við embætti forsætisráðherra í vikunni eftir að hafa borið sigur úr býtum gegn Rishi Sunak í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins.

Spurður um samband Rússa og Breta, sagði Pútín: „Við vitum hver afstaða Íhaldsflokksins er í þessum málum, þar á meðal varðandi samband við Rússland. Það er þeirra mál hvernig þeir vilja byggja upp samband sitt við Rússneska sambandsríkið.“

„Okkar ber að verja okkar hagsmuni og við gerum það á hverjum tíma. Enginn skal draga það í efa.“