Uppgjörsfundur Marel í síðustu viku var sá fyrsti sem Stacey Katz tók þátt í. Eftir að hafa starfað í átta ár hjá fyrirtækinu var hún ráðin fjármálastjóri í mars síðastliðnum en Stacey var þá komin sjö mánuði á leið með sitt fyrsta barn. Hún snéri aftur til starfa í byrjun október eftir fjögurra mánaða fæðingarorlof.
„Það var áhugaverður og krefjandi tími til að taka við slíkri stöðu, en ég var heppin að eiginmaður minn, hann Stefán, gat tekið lengra fæðingarorlof á móti mér sem sýnir að hlutverkaskiptin þurfa ekki að vera þannig að konan taki alltaf lengra orlof. Heldur er það fyrir bestu þegar fjölskyldur fá svigrúm til að skipuleggja þennan tíma eftir því sem þeim hentar.“
Ásta S. Fjeldsted, sem fór í fæðingarorlof tveimur mánuðum eftir að hafa verið ráðin forstjóri Festi, sagði í viðtali við mbl.is á dögunum að þar sem hún horfði á starfið með lengritímahugsun að leiðarljósi hafi hún ákveðið að sækja um. Stacey tekur undir þessi sjónarmið og segir eðlilegt að fyrirtæki horfi til framtíðar við ráðningar, frekar en næstu mánaða.
Draumurinn úr menntaskóla rættist
Stacey minnist þess að á menntaskólaárunum hafi hún verið spurð hvað hún vildi verða þegar hún yrði eldri. „Ég sagðist vilja verða fjármálastjóri hjá skráðu meðalstóru fyrirtæki með áþreifanlega vöru.“
Þó að þessi draumur hafi vissulega ræst þá hafi þetta ekki alltaf verið markmið í sjálfu sér. Hún kom sem dæmi til Íslands í leit að ævintýrum frekar en starfsframa. Stacey kolféll fyrir íslenskri náttúru og hefur unun af því að ferðast um landið og ljósmynda það.
Gott að snúa sér aftur að tölunum
Stacey hóf störf hjá Marel árið 2014 á viðskiptaþróunarsviði og tók þar þátt í að samþætta skipulag og ferla hjá tekjusviðum samstæðunnar ásamt því að skerpa á áherslum í vöruframboði. Tveimur árum síðar tók hún við sem yfirmaður Global Business Services, þar sem hún leiddi uppbyggingu og þróun miðlægrar innri þjónustu (e. Shared services), auk viðskiptaferla, gagna, viðskiptagreindar og ýmissra upplýsingatækniverkefna þvert á fyrirtækið.
„Það var áhugaverð tilbreyting að snúa sér að öðru en fjárhagstölunum,“ segir Stacey sem er löggiltur endurskoðandi í New York og lýsir sjálfri sér sem stærðfræðinördi. Bakgrunnur hennar í endurskoðun hafi þó hentað vel hvað varðar að kortleggja reksturinn. Starfið veitti henni einnig víðtæka innsýn í fjölbreyttan rekstur Marel og tækifæri til að kynnast öllum sviðum fyrirtækisins.
Samhliða því að stýra framangreindri deild tók hún einnig að sér hlutverk yfirmanns reikningsskila árið 2020 „sem var frábært og gaf mér tækifæri til þess að snúa mér aftur að fjárhagstölunum“.
Viðtalið við Stacey Katz má finna í heild sinni hér. Viðtalið birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 10. nóvember 2022.