Sérvöruverslunin Þruman hefur selt rafhlaupahjól og fylgihluti þeirra fyrir 173 milljónir króna það sem af er ári, samanborið við 126 milljónir allt árið í fyrra og mun minna árið áður.

Hjólin sem Þruman selur eru almennt nokkuð frábrugðin því sem flestir þekkja af rafhlaupahjólum. Á meðan langflest hjól á götunum eru leiguhjól frá leigum eins og Hopp eða minni einkahjól eins og hið vinsæla Xiaomi hjól, eru hjólin í Þrumunni sum hver nær því að vera mótorhjól, og geta kostað um og yfir hálfa milljón.

Eins og gefur að skilja er salan afar árstíðabundin enda ekki fyrir hvern sem er að ferðast um á slíku farartæki í vetrarfærðinni, skammdeginu og kuldanum hér á klakanum. Af áðurnefndri upphæð kom nánast öll upphæðin, eða hátt í 160 milljónir, í kassann milli apríl og ágúst, sem er vel yfir tvöföldun frá sama tímabili í fyrra þegar nýjungagjarnir Íslendingar eyddu þar ríflega 60 milljónum.

Mest var veltan með hjólin í stökum mánuði rúmar 46 milljónir króna í apríl á þessu ári, en í sama mánuði í fyrra náði hún ekki 10 milljónum.

Skipta bílnum út fyrir hjólið

Fyrir þá allra hörðustu býður Þruman þó upp á ýmsan vetrarbúnað ef vilji er til þess að ganga alla leið, og sífellt fleiri hafa verið að taka skrefið yfir í bíllausan lífsstíl með þessum hætti og þurfa þá að geta ferðast á hjólinu í veðrum og vindum.

Guðni Kristjánsson framkvæmdastjóri Þrumunnar, sem rekin er af félaginu Actus, er ýmsu vanur þegar kemur að sölu alls kyns græja. Félagið hafði um tíma umboðið fyrir sölu LG snjallsíma, en einmitt um það leyti sem markaðshlutdeild suður-kóreska raftækjarisans á snjallsímamarkaði fór að dala – sem og áhugi landans á nýjum snjallsímakaupum almennt að einhverju leyti eftir því sem hægt hefur á framþróun þeirra – komu rafhlaupahjólin á fleygiferð inn á markaðinn og blésu nýju lífi í sölu Guðna og Actus.

Guðni hefur því mikla reynslu á sviði smásölu raftækja, og hefur að eigin sögn dregið ýmsan lærdóm af því hlutverki í gegnum tíðina. „Fyrir mér snýst þetta allt um að byggja upp langtímaviðskiptasamband við trygga og ánægða viðskiptavini, sem síðan deila jákvæðri reynslu sinni með öðrum.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.