Íslensk fyrirtæki búa við meiri kostnað en fyrirtæki í öðrum Evrópulöndum vegna innleiðingu sjálfbærniregluverks Evrópusambandsins sem innleitt hafi verið með meira íþyngjandi hætti hér á landi en þörf krefur. Þetta kemur í nýrri greiningu Viðskiptaráðs sem birt var í dag.

Áætlað er að það hafi kostað íslenskt atvinnulíf 9,8 milljarða króna frá árinu 2016 að búa við meira íþyngjandi regluverk um ófjárhagslegar upplýsingar og að hvorki hafi verið rætt um víðtækari innleiðingu né hve möguleg áhrif þess væru.

Markmið Evrópusambandsins er að verða fyrsta loftslagshlutlausa hagkerfið og hefur þar með sett af stað aðgerðaráætlun sem útlistar hvernig sambandið hyggst stýra flæði fjármagns í átt til sjálfbærra lausna. Á þeim grundvelli voru settar reglugerðir sem hafa bæði verið innleiddar hér á landi og verða innleiddar á næstunni.

Viðskiptaráð segir að regluverkið stuðli að sameiginlegu markmiði sem beri að fagna og mun því án efa fylgja mikill ávinningur.

„Þó þarf einnig að horfast í augu við það að regluverkinu fylgir umtalsverður kostnaður fyrir fyrirtæki í landinu. Það skiptir miklu máli að regluverkið sé ekki innleitt með séríslenskum íþyngjandi skilyrðum.“

Ný tilskipun er einnig væntanleg sem mun taka við af núverandi reglum og ófjárhagslegar upplýsingar og telur Viðskiptaráð afar mikilvægt að stjórnvöld innleiði það ekki með séríslenskum íþyngjandi ákvæðum í ljósi þess hversu mikinn kostnað fyrirtæki beri af þeim reglum.