Þjóðskrá birti í vikunni fasteignamat ársins 2023 og kom þar fram að heildarmat fasteigna kæmi til með að hækka um tæp 20% miðað við yfirstandandi ár og nema alls 12.627 milljörðum króna. Um er að ræða talsvert meiri hækkun en árið á undan þegar fasteignamat hækkaði um 7,4% á landsvísu, en Þjóðskrá notast meðal annars við þinglýsta kaupsamninga við mat sitt.
Helgi Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði við Háskóla Íslands, segir ljóst að sveitarstjórnum sé ekki treystandi fyrir skattstofni sem er álíka sveiflukenndur og fasteignaskattarnir. „Þetta getur ekki reynst vel. Stjórnmálamenn eru vísir til að skuldbinda sveitarfélögin í mikil útgjöld sem síðan er ekki hægt að standa undir þegar fasteignaverð fer aftur lækkandi,“ segir Helgi og óttast að Íslendingar muni ekki læra af mistökunum fyrr en fasteignamat hækkar í einu sveitarfélagi en lækkar í sveitarfélaginu við hliðina. „Þá hrynja tekjurnar hjá öðru sveitarfélaginu og hækka í hinu.“
Að sögn Helga þurfa tveir armar hins opinbera, ríki og sveitarfélög, að vera meira samstíga þegar kemur að skattheimtu.
„Ríkið og sveitarfélögin eru í eins konar reiptogi um skattgreiðendur. Það er ríkið sem reiknar matið og svo innheimta sveitarstjórnir skatta byggða á matinu eins og þeim sýnist. Þetta er ekki farsælt kerfi.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.