Bandaríski bankinn Wells Fargo hefur sagt upp fjölda starfsmanna eftir að í ljós kom að þeir voru að blekkja bankann með því að þykjast vera heima að vinna.

Bankinn segir að starfsfólkið hafi náð að blekkja kerfið með því að láta eins og lyklaborðin þeirra væru reglulega í notkun.

Það er enn óljóst hvernig komst upp um starfsfólkið en allir þeir sem reknir voru störfuðu sem fjárfestar fyrir bankann. Samkvæmt nýjum reglum sem tóku í gildi í Bandaríkjunum þurfa fjárfestar sem vinna heima að sæta skoðun á þriggja ára fresti.

Árið 2022 sagði Wells Fargo að það hefði innleitt sveigjanlegt vinnulíkan sem leyfði starfsfólki sínu að vinna að heiman. Heimavinna jókst töluvert í heimsfaraldrinum en síðan þá hafa mörg fyrirtæki notast við sífellt flóknari tækni til að fylgjast með starfsfólki sínu.

Sum forrit geta til að mynda tekið skjáskot, fylgst með augnhreyfingum og séð hvaða heimasíður starfsmenn hafa heimsótt.

Samhliða þeirri tækni hefur einnig þróast tækni sem kemst undan þessu eftirliti, þar á meðal svokallaðir músaflikar sem láta tölvuna halda að notandi sé stöðugt að vinna. Slíkan búnað má finna á Amazon á aðeins 1.500 krónur og samkvæmt síðunni hafa þúsundir tækja selst á síðustu mánuðum.